Erlent

Pútín segir Rússa búa yfir „ósigrandi“ eldflaug

Kjartan Kjartansson skrifar
Enginn hinna sjö frambjóðendanna til forseta eru líklegur til að ógna Pútín í kosningunum 18. mars.
Enginn hinna sjö frambjóðendanna til forseta eru líklegur til að ógna Pútín í kosningunum 18. mars. Vísir/AFP
„Óvinnandi“ langdræg eldflaug er á meðal nýrra vopna sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði í dag að Rússar hefðu þróað. Fullyrti hann að eldflaugin gæti náð til allra landa í heiminum og að eldflaugavarnir Bandaríkjamanna gætu ekki stöðvað þær.

Pútín staðhæfði þetta í síðustu ræðu sinni fyrir forsetakosningar sem fara fram 18. mars. Kynnti hann einnig til sögunnar fjarstýrðan og ómannaðan kafbát sem gæti flutt kjarnavopn.

Um nýju eldflaugina sagði hann að erfitt væri að greina hana, hún hefði nánast ótakmarkað drægi og enginn núverandi eða framtíðareldflaugavarnarkerfi eða loftvarnir gætu stöðvað hana, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Lofaði Pútín jafnframt að fækka fátækum Rússum um helming á næstu sex árum og sagðist stefna á að Rússar næðu svipuðum ævilíkum og Japanir og Frakkar.

Sjö aðrir frambjóðendur eru til forseta en þó ekki Alexei Navalní, helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Honum er bannað að bjóða sig fram vegna dóms sem hann hlaut fyrir fjársvik. Hann hefur hvatt landa sína til að sniðganga kosningarnar. Ákærurnar gegn sér hafi verið runnar undan rótum pólitískra andstæðinga.

Pútín mætti ekki í sjónvarpskappræður hinna frambjóðendanna í gær. Búist er við afgerandi sigri hans í kosningunum. Það yrði þá fjórða kjörtímabil hans sem forseti Rússlands.


Tengdar fréttir

Rússar hóta að loka Youtube og Instagram

Myndir og myndbönd af fundi auðjöfursins Oleg Deripaska og aðstoðarforsætisráðherrans Sergei Prikhodko á snekkju við Noreg árið 2016 vekja usla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×