Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt. Tvær mjög ölvaðar ungar konur voru handteknar í miðbæ Reykjavíkur í nótt og færðar á lögreglustöð. Þá hafði þeim áður verið vísað út af skemmtistað vegna hegðunar. Þegar út var komið sló önnur konan dyravörð en hin henti glerglasi í bíl. Ekki er vitað um skemmdir, kröfur og áverka þegar þetta er skrifað.
Rétt fyrir miðnætti var ölvaður maður handtekinn fyrir mikil eignaspjöll á bifreið. Ökumaður og farþegi sátu í kyrrstæðri bifreiðinni þegar ölvaði maðurinn kom og reyndi að komast inn í bifreiðina. Þegar honum var ekki hleypt inn brást hann illa við og sparkaði í allar hliðar bifreiðarinnar og hafði í ofbeldishótunum. Að sögn lögreglu var hann vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður þegar ölvíman hefur runnið af honum.
Skömmu síðar var mjög ölvaður ökumaður handtekinn á skemmtistað í miðbænum fyrir að reyna að nota stolið greiðslukort. Hann verður vistaður í fangageymslu lögreglu þar til rennur af honum og hægt verður að yfirheyra hann.
Nokkrar tilkynningar bárust um slagsmál í miðbænum en enginn var handtekinn og áverkar voru minniháttar. Nokkrir voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum en sleppt að lokinni sýnatöku.
Lögreglustöð 2 fékk tilkynningu um innbrot í heimahús um klukkan ellefu í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru eignaspjöll unnin og búið að fara inn í herbergi en einskis saknað. Öryggiskerfi á heimilinu hafði farið í gang.
Brentford
Liverpool