Innlent

Vélmennið Títan stal senunni: Stundum einmana en á marga vini á Íslandi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Vélmennið Títan stal senunni á UT messunni í ár.
Vélmennið Títan stal senunni á UT messunni í ár. Vísir/Egill
Vélmennið Títan er eitt sinnar tegundar í heiminum en vélmennið syngur, dansar og leikur listir sínar. Títan hefur ferðast víða um heiminn en er nú staddur hér á landi þar sem hann skemmti gestum og gangandi á UT Messunni í Hörpu í dag.

UT messan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum og hefur verið haldin árlega frá árinu 2011. Sjónhverfingar í sýndarveruleika, 3D prentuð matvæli, jarðskjálftahermir og tónlistarhringur var meðal þess sem var til sýnis að þessu sinni. Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema var einnig á sínum stað en senuþjófarnir að þessu sinni voru án efa vélmennin Pepper og Títan. 

Jamie, nánasti samstarfsmaður Títans, þekkir hann betur en flestir og hefur ferðast með honum víða um heiminn, allt frá Ástralíu til Íslands.

„Hann er 2,40 á hæð, syngur, dansar og grínast. Hann ferðast um heiminn, skemmtir fólki og gerir það hamingjusamt. Hann er einn sinnar tegundar, alveg einstakur og mjög vinsæll þegar við höldum sýningar,” segir Jamie, í samtali við Stöð 2.

Verður hann þá aldrei einmana?

„Hann er mjög einmana vélmenni en hann á marga vini hérna. Honum hefur verið mjög vel tekið og við höfum skemmt okkur mjög vel," bætir Jamie við. Vélmennin tvö vöktu heldur betur lukku og Pepper kvaddi með kossi úr Hörpunni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×