Erlent

Göngubrú hrundi í Miami: Lögregla segir nokkra látna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Að sögn lögreglu á svæðinu eru nokkrir látnir.
Að sögn lögreglu á svæðinu eru nokkrir látnir. Vísir/AFP
Göngubrú hrundi í Miami í Flórída-ríki í dag. Að sögn lögreglu á svæðinu eru einhverjir látnir en brúin, sem liggur milli háskólabyggingar Alþjóðaháskólans í Flórída og heimavistar nemenda, er nýreist.

Fréttamiðlar á svæðinu segja ótilgreindan fjölda fólks fastan undir rústum brúarinnar, sem liggur yfir hraðbraut, en enn átti eftir að taka hana í notkun. Eins og áður sagði er brúin staðsett á lóð Alþjóðaháskólans í Flórída og segir í tilkynningu frá skólanum að viðbragðsaðilar vinni nú björgunarstarf á vettvangi.

„Við erum harmi slegin vegna hinna hörmulega atburða sem áttu sér stað við FIU-Sweetwater-göngubrúna,” segir enn fremur í tilkynningu.

Vitni að hamförunum sagði í samtali við ABC-sjónvarpsstöðina að „hryllleg“ öskur heyrðust úr bílum sem væru fastir undir brúnni sem er talin vega um 950 tonn. Um er að ræða a.m.k. fimm ökutæki.

Fjölmiðlafulltrúi Hvíta Hússins, Sarah Sanders, hefur staðfest að Donald Trump Bandaríkjaforseta hafi verið gert viðvart um slysið. Þá er ríkisstjóri Flórída, Rick Scott, einnig meðvitaður um það og mun leggja leið sína til Miami innan skamms.



Gert var ráð fyrir að brúin yrði tilbúin árið 2019 en hún liggur yfir umferðarþunga götu. Í frétt BBC kemur fram að nemendur og kennarar við Alþjóðaháskólann hafi ítrekað beðið um að brúin yrði byggð svo auðveldara væri fyrir þá að komast á milli bygginga. Árið 2017 varð nemandi við skólann fyrir bíl á leið sinni yfir hraðbrautina og lést.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×