„Breytti engu að augljóslega væri ég ég og að alls staðar annars staðar í bókun kæmi fram Jakobsdóttir, á kreditkorti , e-mail o.sv.frv.,“ segir Elsa María í færslu sem hún birtir á Facebook.
Svanhvít segir að því miður hafi Elsa ekki bókað sig rétt. „Vegna öryggis má flugfélagið ekki breyta fornafni og eftirnafni. Þjónustuaðili okkar á Keflavíkurflugvelli fór því eftir settum reglum en nafn farþega verður að vera bókað eins og fram kemur í vegabréfi,“ segir Svanhvít.
Hún segir flugfélagið hafa leyfi til að koma til móts við farþega með því að breyta tveimur til þremur stöfum ef um augljósa prentvillu er að ræða.

Í Facebook-færslu sinni segist Elsa María hafa heyrt aðra starfsmenn Wow við innritun ræða sín á milli að flugið væri löngu yfirbókað.
„Mér var tvívegis meinað að ræða við yfirmann, fékk ekki endurgreitt en var boðið að kaupa annað sæti á 79.000 krónur og þegar ég vildi fá nafnið á þessum óliðlega starfskrafti í innritun sigaði hún öryggisverði á mig,“ segir Elsa María.
Svanhvít segir í samtali við Vísi þetta tilfelli ekki hafa með yfirbókun í flug að gera heldur fóru þjónustuaðilar Wow Air á Keflavíkurflugvelli eftir settum öryggisreglum.
Snýst um þjónustulund
Elsa segir á Facebook að hún hafi nokkrum sinnum orðið vitni að fólki í svipuðum aðstæðum hjá öðrum flugfélögum þar sem augljóslega er um sama farþega að ræða og það hafi verið leyst án nokkurra vandamála.
„Þetta snýst auðvitað um þjónustulund og almenna skynsemi og ekkert annað. Konsept sem Wow kýs augljóslega að hafna,“ segir Elsa María.
Hún segist hafa neyðst til að kaupa sér annað far til Kaupmannahafnar á svimandi háu verði á síðustu stundu hjá Icelandair.
Ekki náðist í Elsu Maríu við vinnslu fréttarinnar.