Innlent

Þrír mánuðir síðan skipunartími rannsóknarnefndar rann út

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Nefndarmenn tilheyra ekki daglegri starfsemi og eru því öllu jafna ekki í fullu starfi. Þeir hins vegar afgreiða rannsóknarskýrslur starfsmanna á alvarlegum slysum í lofti, láði og sjó.
Nefndarmenn tilheyra ekki daglegri starfsemi og eru því öllu jafna ekki í fullu starfi. Þeir hins vegar afgreiða rannsóknarskýrslur starfsmanna á alvarlegum slysum í lofti, láði og sjó. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Rannsóknarnefnd samgönguslysa er ekki starfandi eftir að skipunartími nefndarmanna rann út í lok maí og nú tæpum þremur mánuðum síðar hefur samgönguráðherra enn ekki skipað nýja nefnd. Fresta hefur þurft afgreiðslu mála sökum þess að nefndarmenn eru án umboðs.

Rannsóknarnefndir flug, umferðar- og sjóslysa voru sameinaðar í eina nefnd, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, í febrúar 2013 með nýjum lögum sem tóku gildi fyrsta júní sama ár.

Nefndin er skipuð 7 aðalmönnum og 6 varamönnum og hafa nefndarmenn faglegan bakgrunn á hverju sviði fyrir sig og sitja nefndarfundi á því sviði sem bakgrunnur þeirra nær til.

Nefndarmenn tilheyra ekki daglegri starfsemi og eru því öllu jafna ekki í fullu starfi. Þeir hins vegar afgreiða rannsóknarskýrslur starfsmanna á alvarlegum slysum í lofti, láði og sjó.

Morgunblaðið greindi fyrst frá því í morgun að skipunartími nefndarmanna hafi runnið út 31. maí síðastliðinn og er því Rannsóknarnefndin ekki starfandi sem stendur.

Fram kemur í Morgunblaðinu að sá hluti nefnd­ar­inn­ar sem ann­ast rann­sókn­ir sjó­slysa hafi ætlað að funda síðastliðinn föstu­dag, eins og til­tekið var í starfs­áætl­un en ekk­ert hafi orðið af fund­in­um því umboð nefnd­ar­manna var runnið út.

All­mörgum málum sem voru á dag­skránni hafi því þurft að fresta.

Stofnunin heyrir í dag stjórnsýslulega undir Samgönguráðherra. Hún starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum.

Fyrrverandi formaður nefndarinnar, Geirþrúður Alfreðsdóttir, baðst undan viðtali við fréttastofu í morgun en sagði að beðið væri eftir nýjum skipunarbréfum frá ráðherra og að þau væru væntanleg innan tíðar. Hún sagði ráðherra leggja áherslu á faglega skipun nefndarmanna og jafnvægi í kynjahlutfalli. Og bætti við að það hefði ekki áhrif á daglega starfsemi stofnunarinnar að nefnd væri ekki skipuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×