Söngvaskáldið umdeilda, Gylfi Ægisson, hefur tekið sig til og samið stöku um stjörnu nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, leiðtoga Sósíalista í borginni. Þar gerir hann sér mat úr einu umdeildasta atriði kosningabaráttunnar og telur Einar Þorsteinsson, fréttamann Ríkisútvarpsins, hafa „fallið á eigin bragði“.
Gylfi Ægisson var lengi einn dáðasti laga og textahöfundur landsins og samdi fallega texta og lög á borð við Í sól og sumaryl og svo allt yfir í hinn nánast dónalega og glettinn brag: Sjúddírarírei. Dálæti margra á Gylfa fór hins vegar fyrir lítið þegar hann lét til sín taka í andófi gegn Gleðigöngunni sem hann telur atlögu við almennt velsæmi hvar samkynhneigðir fara um á leðurbuxum með beran rassinn og bjóða tippasleikjóa börnum og gamalmennum. Gylfi hefur verið býsna afgerandi í þeirri baráttu sinni og ekki gefið tommu eftir: „Þetta er bara klámsýning“.
Kveðskapur Gylfa, sem hann birtir á athugasemdakerfi Vísis, er þó líkast til við alþýðuskap því stakan lýsir verulegri ánægju með hina ungu stjórnmálakonu. Gylfi gerir sér mat úr umdeildu atviki í kosningasjónvarpi Ríkissjónvarpsins, hvar Einar Þorsteinsson spyrill gekk fremur harkalega að margra mati á Sönnu og krafðist reikningsskila af hennar hálfu í því sem snýr að fortíð Gunnars Smára Egilssonar, sem hefur verið prímusmótor í starfi Sósíalistaflokksins. Sú framganga fór öfugt ofan í margan manninn og til að mynda krafðist Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í opnu bréfi til Einars þess að hann segði sig frá frekari störfum hjá Ríkisútvarpinu.
En, Sönnustaka Gylfa er svona:
Sanna hefur sannað sig
sannarlega Einar lagði
Angraði það ekki mig
er hann féll á eigin bragði.
Gylfi semur stöku um Sönnu

Tengdar fréttir

Kjörsóknin, rassskelling Vg, vending í Reykjavík og hann Einar Þorsteinsson
Grétar Þór Eyþórsson telur að botninum sé náð hvað dræma kjörsókn varðar.

Framkvæmdastjóri Sósíalista kallar fréttamann RÚV drullusokk eftir kappræður
Fréttamaðurinn spurði frambjóðanda Sósíalista hvort kjósendur gætu treyst flokknum með Gunnar Smára Egilsson í brúnni.