Harry Bretaprins og Meghan Markle, sem trúlofuðu sig í fyrra og hyggjast ganga í hjónaband þann 19. maí næstkomandi, munu bjóða 2640 almennum borgurum til brúðkaups síns í Windsor-kastalanum í London. Breska dagblaðið The Guardian greinir frá.
Fulltrúar Bretadrottningar munu velja sérstaklega 1200 téðra almennra borgara. Í frétt Guardian segir að þess verði sérstaklega gætt að boðsgestir verði á öllum aldri og frá stöðum víðsvegar um Bretland.
Þá mun fólkið fá tækifæri til að fylgjast með því þegar brúðhjónin tilvonandi og aðrir gestir mæta í brúðkaupið, auk þess sem hægt verður að virða fyrir sér hin nýgiftu hjón og fylgdarlið þeirra að athöfn lokinni. Miðarnir veita þó hvorki aðgang að athöfninni sjálfri né brúðkaupsveislunni.
Á meðal annarra almennra borgara sem fá boðskort í brúðkaupið eru starfsmenn hjálpar- og góðgerðarsamtaka á Bretlandi og nemendur skóla í grennd við Windsor-kastalann. Allir miðarnir munu auk þess vera merktir með nöfnum boðsgesta til að koma í veg fyrir endursölubrask.
Harry Bretaprins og bandaríska leikkonan Meghan Markle trúlofuðu sig í nóvember á síðasta ári. Mikil eftirvænting ríkir í Bretlandi vegna brúðkaups skötuhjúanna.
Bjóða 2600 almennum borgurum í brúðkaupið

Tengdar fréttir

Harry segir konungsfjölskylduna vera fjölskylduna sem Meghan hafi aldrei átt
Harry bretaprins segir að fyrstu jól unnustu hans Meghan Markle með bresku konungsfjölskyldunni hafi heppnast vel.

3 hlutir sem við vitum um brúðkaup Meghan og Harry
Það bíða margir spenntir eftir næsta konungalega brúðkaupi í Bretlandi.

Sagður ætla að bjóða tveimur fyrrverandi kærustum
Harry Bretaprins og Meghan Markle munu ganga í það heilaga í maí og samkvæmt breskum miðlum mun Harry bjóða tveimur fyrrverandi kærustum sínum í brúðkaupið.