Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn hagnast um níu bæjarfulltrúa á d'Hondt reiknireglunni

Jakob Bjarnar skrifar
Marinó fer yfir það hvernig d'Hondt-reiknireglan virkar en Eyþór Arnalds og Sjálfstæðismenn um land allt högnuðust verulega á henni.
Marinó fer yfir það hvernig d'Hondt-reiknireglan virkar en Eyþór Arnalds og Sjálfstæðismenn um land allt högnuðust verulega á henni.

„Samkvæmt mínum útreikningum hagnaðist D-listinn um 9 sæti vegna d'Hondt reglunnar, þar af fékk flokkurinn tvö sæti umfram fylgi í Hafnarfirði. Á móti misstu M, P og V af 9 fulltrúum,“ skrifar Marinó G. Njálsson talnafræðingur á Facebooksíðu sína.

Hlutfall atkvæða ekki í samræmi við fjölda fulltrúa

Marínó hefur lagst yfir niðurstöður kosningaúrslitanna að teknu tilliti til þess hversu marga fulltrúa flokkarnir fengu og hvaða áhrif d'Hondt-reiknireglan hefur í því samhengi.

Í ljós kemur að í 15 sveitarfélögum af þeim 36 sem Marinó skoðaði, færir d'Hondt reiknireglan, sem notuð er við úthlutun aðalmanna í sveitarstjórnum, flokkum aðra fulltrúatölu en hlutfall atkvæða flokkanna segir til um.

„Í einhverjum tilfella leiðir þetta til þess að flokkur fær meirihluta í sveitarstjórn án þess að vera með meirihluta atkvæða. Í öðrum tilfellum fá stórir flokkar fleiri fulltrúa, en þeir ættu að fá, réði beint hlutfall atkvæða,“ skrifar Marinó.

Reglan ranglát

Á Íslandi er stuðst við d'Hondt-regluna við útreikninga á úrslitum kosninga og þá úthlutun þingsæta. Við hana er einnig stuðst í sveitarstjórnarkosningum. Hún var notuð frá 1959 til 1987 við úthlutun kjördæmasæta og við úthlutun jöfnunarsæta. Hún var svo tekin upp aftur. Í 107. grein kosningalaga er kveðið á um regluna: „Deila skal í atkvæðatölur listanna með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.“

Ólafur Þ. Harðarson er meðal þeirra sem bent hefur á galla reiknilíkansins sem lagt er til grundvallar því hvernig sætum er úthluta til flokkanna. Því fer fjarri að þar sé samræmi á, milli fjölda sæta og hlutfalls atkvæða.visir/gva

Marinó segir það sína skoðun að d'Hondt reglan hafi runnið sitt skeið á enda. „Hún var tekin upp, þegar 4-6 flokkar buðu að jafnaði fram til Alþingis. Jafnvel þá, var hún ekki betri en svo, að sauma þurfti við hana jöfnunarþingsætum til að leiðrétta skekkjurnar sem reglan skapar. Í sveitarstjórnarkosningu eru engin jöfnunarsæti og því er rangt að beita reglunni.“

Þeir sem fengu að kenna á d'Hondt-reglunni

Marinó fer síðan nánar í saumana á það hvernig reglan virkar í raun:

  • Árborg: D-listi fékk sæti á kostnað V-lista
  • Borgarbyggð: B-listi fékk sæti á kostnað D-lista
  • Fjarðarbyggð: L-listi fékk sæti á kostnað M-lista
  • Fljótsdalshérað: D-listi fékk sæti á kostnað M-lista
  • Garðabær: D-listi fékk sæti á kostnað M-lista
  • Grímsnes- og Grafningshreppur: E-listi fékk sæti á kostnað G-lista
  • Grindavík: D-listi fékk sæti á kostnað G-lista
  • Hafnarfjörður: D-listi fékk 2 sæti á kostnað P- og V-lista
  • Kópavogur: C- og D-listar fengu sæti á kostnað M- og V-lista
  • Mosfellsbær: D-listi fékk sæti á kostnað Í-lista
  • Reykjanesbær: S-listi fékk sæti á kostnað P-lista
  • Reykjavík: D- og S-listar fengu sæti á kostnað B- og J-lista
  • Seltjarnarnes: D-listi fékk sæti á kostnað F-lista
  • Stykkishólmur: H-listi fékk sæti á kostnað L-lista Vestmannaeyjar: H-listi fékk sæti á kostnað E-lista

d'Hondt reglan hyglar stærri flokkum

Gunnar Smári Egilsson í Sósíalistaflokknum er meðal þeirra sem vekur athygli á útreikningum Marinós enda telur hann sinn flokk hafa verið hlunnfarinn um einn fulltrúa í borginni. Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur leggur orð í belg á Facebooksíðu Gunnars Smára þar sem þetta er til umræðu og segir:

„Má ég benda þér á grein sem við Indriði H. Indriðaon skrifuðum í Stjórnmál og stjórnsýslu 2007? Hún fjallar ma. um það hvernig d'Hondt reglan hefur hyglað stórum flokkum í sveitarstjórnarkosningum í áratugi og hvernig St.Lagüe hefði virkað öðruvísi.“

Atkvæðahlutfall segir ekki alla söguna um skiptingu fulltrúa

Í grein þeirra Ólafs og Indriða, sem er frá árinu 2005, segir að reglan hafi þann eiginleika að hún er hagstæð stórum flokkum, einkum þegar fjöldi fulltrúa er lítill. Reglan felst í því að deilt er í atkvæðatölu hvers flokks með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. – og hæstu útkomurnar gefa fulltrúa, jafnmarga og kjósa á.“

Þeir Ólafur og Indriði telja sig hafa sýnt fram á, í grein sinni, að því fari fjarri að atkvæðahlutfall flokka í kosningum eitt og sér segi alla söguna um skiptingu fulltrúanna.


Tengdar fréttir

Lokatölur í Reykjavík: Meirihlutinn er fallinn

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í Reykjavík með átta fulltrúa af tuttugu og þremur. Samfylkingin er næststærst með sjö og Viðreisn fær tvo fulltrúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×