Innlent

Keypti flugmiða til að stela sígarettum úr fríhöfninni

Atli Ísleifsson skrifar
Greint var frá því í síðasta mánuði að fjórir menn hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á stórfelldum þjófnaði á sígarettum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Greint var frá því í síðasta mánuði að fjórir menn hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á stórfelldum þjófnaði á sígarettum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm
Erlendur karlmaður var staðinn að því að stela fjórtán kartonum af sígarettum úr fríhafnarverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á föstudaginn var.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum segir að maðurinn hafi keypt sér flugmiða til London en aldrei farið út úr flugstöðinni. Hann hafi látið greipar sópa í fríhöfninni og svo ætlað sér að yfirgefa hana.

„Í skýrslutöku hjá lögreglunni á Suðurnesjum játaði hann að hann hefði aldrei ætlað að fara um borð í flugvélina heldur komast inn í flugstöðina til að stela sígarettukartonum úr fríhöfninni á 2. hæð.

Maðurinn var vistaður í fangageymslu og tekin ákvörðun um að setja hann síðan í tilkynningarskyldu til 14. desember. Skal hann tilkynna sig til lögreglu þrisvar í viku hverri á umræddu tímabili,“ segir í tilkynningunni.

Greint var frá því í síðasta mánuði að fjórir menn hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á stórfelldum þjófnaði á sígarettum. Voru þeir grunaðir um að hafa beitt sömu aðferð, það er keypt flugmiða, farið í fríverslunina, stolið alls níu hundruð kartonum og komið fyrir í ferðatöskum sem þeir höfðu meðferðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×