Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum hvetur leiðtoga Írans til þess að „líta í spegil“ vilji þeir komast að því hverjar séu ástæðurnar sem lágu að baki mannskæðri skotárás á hersýningu í gær.
25 létust og fjölmargir særðust er árásarmenn hófu skothríð í miðri hersýningu í borginni Ahvaz í suðvesturhluta landsins. Yngsta fórnarlambið var aðeins fjögurra ára gamalt.
Hassan Rouhani, forseti Írans, brást ókvæða við árásinni og sagði hann hegðun yfirvalda í Bandaríkjunum og „leppríkja þeirra“ hafa gert það að verkum að árásin var framin. Sagði hann raunar að yfirvöld í Bandaríkjunum væru yfirgangsseggir með tengsl við hópana sem lýst hafa yfir ábyrgð á árásinni. Bæði ISIS og hópur sem berst gegn stjórn Írans hafa lýst yfir ábyrgð.
Bandaríkin hafa hins vegar alfarið neitað ásökunum Rouhani og í viðtali við CNN sagði Haley að Rouhani ætti að líta sjálfum sér nær áður en hann færi að saka aðra um að bera ábyrgð á ódæðinu.
„Hann hefur kúgað sitt fólk í lengri tíma og hann þarf að líta inn á við ef hann vill átta sig á því hvaðan andstaðan kemur,“ sagði Haley. „Hann getur kennt okkur um eins og hann vill. Það sem hann þarf hins vegar að gera er að líta í spegil“.
Rouhani er væntanlegur til Bandaríkjanna í næstu viku til þess að verða viðstaddur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

