Erlent

Mál um rekstur Trump fer fyrir dóm

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci
Lögsókn gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, mun fara fyrir dóm. 200 þingmenn Demókrataflokksins höfðuðu mál gegn forsetanum og sögðu viðskipti fyrirtækis hans við erlenda embættismenn og ríkisstjórnir brjóta gegn stjórnarskránni. Alríkisdómari hefur nú úrskurðað að málið megi fara fyrir dóm.

Lögsóknin byggir á klausu stjórnarskrár Bandaríkjanna um að forseti ríkisins megi ekki taka við fjármunum frá öðrum ríkjum, án leyfis þingsins. Fyrirtæki Trump sem rekur meðal annars hótel í Washington DC, á í stöðugum viðskiptum við embættismenn og ríkisstjórnir annarra ríkja. Þjóðhöfðingjar hafa gist þar vegna funda við forsetann.

Trump stendur í nokkrum dómsmálum samkvæmt Washington Post og hafa saksóknarar í Washington DC og Maryland áður höfðað mál vegna greiðslna frá erlendum ríkjum til hótels Trump. Saksóknarar í New York hafa ákært Trump fyrir að misnota góðgerðarsamtök sín og Summer Zervos, sem keppti eitt sinn í raunveruleikaþætti Trump, The Apprentice, hefur höfðað mál gegn honum fyrir meiðyrði.



Þar að auki er vert að nefna Rússarannsóknina sem snýr meðal annars að því hvort að framboð Trump hafi veitt Rússum einhvers konar samstarf vegna afskipta þeirra af forsetakosningunum 2016.

Dómarinn Emmet G. Sullivan, skrifaði í úrskurði sínum að ef ásakanir Demókratanna reyndust réttar væri forsetinn að þiggja greiðslur erlendis frá án leyfis þingsins.

Börn Trump sjá um daglegan rekstur fyrirtækisins en Trump sjálfur á það enn og hagnast af því.

Lögfræðingar Trump segja að forsetinn þurfi ekki að biðja þingið um leyfi þar sem ekki sé um beinar greiðslur frá erlendum ríkjum að ræða, að minnsta ekki eins og stofnendur Bandaríkjanna hafi séð greiðslurnar fyrir sér þegar þeir skrifuðu stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Þeir höfðu farið fram á að málið yrði fellt niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×