Óhætt er að segja að full óvildi ríki milli Sjálfstæðismanna og Pírata á þinginu. Lá við að uppúr syði í gær en þá steig Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í pontu og sagði óboðlegt með öllu að þingmenn væru að þjófkenna samþingmenn sína. Hann er þar að vísa til fyrirspurna Björns Levís sem snúa að akstursstyrk Ásmundar Friðrikssonar. Vísir greindi frá þessu á dögunum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem uppúr sýður milli þingmanna þessara flokka en fyrr á þessu ári sakaði Ásmundur sjálfur Pírata um lítilmannlega umræðu, en þá snéri hin meinta lítilmennska Pírata að formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni.
„Skemmtilegt að fá svona stuðning frá Sjálfstæðisþingmönnum. Þeir skilja greinilega hversu alvarlegt mál þetta er,“ segir Björn Leví en fer þó ekki öllu lengra með að hafa málið í flimtingum. En Páll Magnússon birti þrumuræðu sína á Facebooksíðu sinni í gær.
Hlakkar til að heyra rökstuðninginn
Björn Leví vitnar til einnar af mörgum fréttum Vísis af akstursstyrkjamálinu en þar var Ásmundur styrkjakóngur. Sú frétt fjallar um hugsanlega samþættingu dagskrárgerðar Ásmundar fyrir ÍNN og svo þingstarfa.„Ef einhver ætlar að segja að það sé hluti af þingstörfunum að láta mynda sig í ferð um kjördæmið þá hlakka ég til þess að heyra þann rökstuðning. Einnig hlakka ég til þess að sjá öll þau fundarboð sem þurfa sannanlega að vera til staðar sem gögn fyrir endurgreiðslu aksturskostnaðar.“

„Endurgreiða skal ferðakostnað innan kjördæmis fyrir ferðir á fundi eða samkomur sem þingmaður boðar til eða hann er boðaður á, enda sé vegalengd á fundarstað a.m.k. 15 km (önnur leiðin) frá heimili eða starfsstöð“.
Telst varla til þingstarfa að skreppa í kaffi
Þingmaður Pírata segir að það geti ekki verið nóg að skreppa í kaffi og það teljist þá „fundur með þingmanni“ og heyri þar með til þingstarfa.„Það getur ekki staðist að þingið sé rukkað um þær upphæðir sem um ræðir á einu stysta kjörtímabili Íslandssögunnar. Kosningabarátta er ekki endurgreiðanleg af Alþingi. Það verður áhugavert að sjá hvað forsætisnefnd gerir í málinu. Hversu góð verður rannsóknin? Verður hún hvítþvottur eða verður rannsóknin óvéfengjanleg,“ segir Björn Leví og bætir því við að hann treysti fáum betur en samflokksmanni sínum Jóni Þór Ólafssyni til að fygljast með því í forsætisnefnd.