Erlent

Skipta flugeldum út fyrir dróna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fljúga gráu drónarnir, fyrir utan glugga.
Fljúga gráu drónarnir, fyrir utan glugga. Vísir/getty
Bæjaryfirvöld í Aspen munu ekki bjóða upp á árlega flugeldasýningu í tilefni þjóðhátíðardags Bandaríkjanna, sem er í dag. Þau óttast að flugeldarnir kunni að valda skógareldum, en miklir þurrkar hafa leikið Colorado grátt síðustu vikur. Þess í stað verður blásið til heljarinnar drónasýningar þar sem 50 fjarstýrð flygildi verða notuð til að lýsa upp næturhimininn.

Brunavarnir Colorado hafa bannað fólki að kveikja elda í vesturhluta ríkisins, af ótta við að þeir kunni að breiðast út í þurru grasinu.

„Við þurftum því að finna einhvern annan hápunkt fyrir hátíðarhöldin, þannig að við ákváðum að vera með drónasýningu. Þetta ætti að heppnast, þetta er svolítið nýmóðins,“ er haft eftir talsmanni hátíðarinnar á vef breska ríkisútvarpsins.

Hann útilokar ekki að bæjaryfirvöld þurfi að grípa til þess ráðs aftur á næstu árum, fari svo að þurrkarnir í ríkinu séu komnir til að vera.

Drónasýningar eru sífellt að verða vinsælli á mannamótum. Á Vetrarólympíuleikunum í upphafi þessa árs mynduðu 1218 drónar Ólympíuhringina, svo dæmi sé tekið. Þá notaðist söngkonan Lady Gaga við dróna í hálfleikssýningu Superbowl árið 2017. Hver veit nema að drónarnir í Aspen myndi bandaríska fánann, eins og sjá mátti í sýningu Lady Gaga á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×