Erlent

Myrti soninn til að sleppa við öldrunarheimilisvist

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Anna Mae Blessing hefur verið ákærð fyrir morðið á syni sínum.
Anna Mae Blessing hefur verið ákærð fyrir morðið á syni sínum. Lögreglan í Maricopa-sýslu
Bandarísk kona á tíræðisaldri er sögð hafa skotið son sinn, sem var 72 ára gamall, til bana vegna hugmynda hans um að hún yrði vistuð á öldrunarheimili. Anna Mae Blessing, sem ákærð hefur verið fyrir morðið, á að hafa íhugað tilboð sonar síns í nokkra daga áður en hún svo ákvað að skjóta hann.

Á vef breska ríkisútvarpsins er Blessing sögð hafa öskrað, þegar hún var flutt handjárnuð af heimili sínu í Arizona á mánudag: „Þú tókst líf mitt, þannig að ég mun taka þitt.“ Þá á hún að hafa tjáð lögreglumönnum að hún hafi haft í hyggju að svipta sig lífi.

Blessing bjó ásamt syni sínum og kærustu hans. Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar að sonurinn hafi viljað koma móður sinni fyrir á öldrunarheimili því sambúðin hafi verið orðin stirð. Blessing á því að hafa falið tvær skammbyssur innanklæða og boðað til fjölskyldufundar í svefnherbergi sonarins.

Mæðginin eru sögð hafa hnakkrifist og lauk rifrildinu með því að Blessing dró upp aðra byssuna og skaut að syni sínum. Hún á að hafa hæft son sinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, með tveimur skotum. Annað fór í háls hans en hitt í kjálkann.

Fannst í hægindastólnum

Því næst hafi Blessing miðað byssunni að tengdadóttur sinni, sem er 57 ára, en henni hafi tekist að slá byssuna úr höndum konunnar. Þá er Blessing sögð hafa dregið upp hina skammbyssuna en aftur tókst tengdadótturinni að slá byssuna úr greipum hennar.

Því næst er kærastan sögð hafa hlaupið út og hringt á lögregluna. Þegar lögreglumenn komu á vettvang eiga þeir að hafa fundið Blessing í hægindastól í herberginu sínu. Haft er eftir Blessing á vef breska ríkisútvarpsins að henni þætti réttast að „svæfa hana“ fyrir gjörðir sínar.

Blessing hefur sem fyrr segir verið ákærð fyrir morðið og verði hún fundin sek má hún búast við löngum dómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×