Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Keflavík 3-1 | KR með mikilvægan sigur á föllnum Keflvíkingum

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Atli Sigurjónsson kom KR í 2-1
Atli Sigurjónsson kom KR í 2-1 vísir/eyþór
KR fékk botnlið Keflavíkur í heimsókn í Frostaskjólið er heimamenn ætluðu að freista þess að komast aftur á beinu brautina í baráttunni um Evrópusæti.

 

KR tapaði síðasta leik fyrir landsleikahléið 4-0 gegn FH sem er einmitt að berjast við KR um sæti í Evrópu og því mikið undir fyrir KR.

 

Það var þó ekki að sjá framan af fyrri hálfleik þar sem það var engu líkara en 22 sniglar væru að spila boltanum á milli sín miðað við hraða leiksins. Þá kvekti Keflavík aldeilis í leiknum er Aron Bjarki missti boltann klaufalega í öftustu línu KR og horfði á eftir Franz Elvarssyni ná boltanum og afgreiða hann í netið.

 

Gífurlega óvænt staða en veruleikinn hélt þó enn takti við sögu Keflvíkinga í sumar því varla mínútu síðar var KR búið að jafna leikinn.

 

Pálmi Rafn smellti þá boltanum í samskeytin úr erfiðu færi og staðan orðin jöfn. Staðan var 1-1 í hálfleik og leikurinn furðulega jafn. Keflavík missti hinsvegar taktinn í seinni hálfleik þar sem KR tóku á endanum öll völd og fóru að banka virkilega fast á dyrnar.

 

Á endanum brast stíflan er Atli Sigurjónsson kom KR yfir áður en að Pálmi gulltryggði sigurinn stuttu síðar. Lokatölur 3-1 og þar sem FH missti stig gegn Víkingum á sama tíma er KR svo sannarlega í bílstjórasætinu í baráttunni um Evrópusætið.

 

Afhverju vann KR?


Það er ekkert hægt að segja um Keflavíkur liðið sem ekki er búið að segja. Þetta var alls ekkert skelfilegur leikur af þeirra hálfu og ef þetta hefði verið eitt af hinum liðum deildarinnar þá hefði ég ekki haft mikið út á þetta að setja.

 

Staðreyndin er hinsvegar sú að Keflavík hefur ekki enn unnið leik og einungis tveir leikir eftir af sumrinu. Það kom því ekkert á óvart þegar Keflavík gaf eftir í seinni hálfleik og fékk á sig þessi tvö mörk. 

Fínn sigur hjá KR en þetta flokkast sem algjör skyldusigur. Þó svo hann hafi reynst ansi mikilvægur í baráttunni um Evrópusætið.

 

Hvað gekk illa?


Keflavík náði aftur ekki að gera grundavallar hluti rétt og vel. Það var þeim að falli og hefur verið í allt sumar.

 

Hverjir stóðu upp úr?


Atli Sigurjónsson var virkilega líflegur og var að mínu mati þeirra besti maður á vellinum í dag. Það er hinsvegar hægt að nefna einnig Pálma Rafn sem í þeim efnum sem skoraði tvö mörk og var hársbreidd frá því að innsigla þrennuna sína á lokamínútunum.

 

Óskar var líka líflegur eins og svo oft áður. Virkilega fín frammistaða hjá KR heilt yfir.

 

Hvað gerist næst?


KR fær Fylki í heimsókn og getur með sigri komist enn nær þessu gullna Evrópusæti á meðan Keflavík fær Víkinga í heimsókn. Skyldi liðið vinna sinn fyrsta sigur í sumar þar? Það er eiginlega eins gott því síðasti leikur liðsins í sumar er á Hlíðarenda gegn toppliði Vals.

 

Atli Sigurjónsson: Ég ætla ekki að segja eitthvað heimskulegt

Atli Sigurjónsson átti góðan leik fyrir KR í dag í 3-1 sigri liðsins á Keflavík en hann skoraði annað mark leiksins og var einn af bestu mönnum vallarins.

 

„Ég er gríðarlega ánægður með sigurinn. Þetta var mikilvægur sigur í evrópubaráttunni. Þetta var verkefni sem við urðum að klára,“ sagði Atli og sagði lykilinn að sigrinum vera þolinmæði.

 

„Við töluðum um fyrir leik að þetta yrði þolinmæðisvinna. Höfum lent í því áður að verða óþolinmóðir of snemma en við héldum „kúlinu“ og kláruðum þetta vel.“

 

KR er í mjög sterkri stöðu í ljósi þess að á meðan liðið vann Keflavík missti FH stig gegn Víkingum er þau tvö skildu jöfn. KR er því í bílstjórasætinu fyrir síðustu tvær umferðirnar. En er þetta endanlega komið hjá KR?

 

„Ég ætla ekki að fara að segja eitthvað heimskulegt. Við verðum að klára okkar leiki sem eftir eru,“ sagði Atli sem hefur ekki verið fastagestur í byrjunarliði KR í sumar en hann virðist áfram vera á að þolinmæðin sé besta leiðin.

 

„Ég nýti þau tækifæri sem ég fæ. Ég er ekkert ósáttur með sumarið þó það væri vissulega fínt að spila meira.“

 

Rúnar Kristinsson: Þetta var erfið fæðing – Gunnar Þór veit hvað það er


„Gunnar Þór (leikmaður KR) sagði fyrir leik að þetta yrði erfið fæðing. Hann ætti að þekkja það þar sem konan hans fæddi tvíbura fyrir nokkrum árum þannig við vissum að við yrðum að vera þolinmóðir,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir 3-1 sigur hans manna á botnliði Keflavíkur í Pepsi deild karla í fótbolta í dag.

 

Flestir bjuggust við auðveldum sigri KR en sú varð ekki rauninn, allavega fyrstu 70 mínútur leiksins.

 

„Keflavík, eins og þeir spiluðu í dag voru mjög góðir og gerðu okkur erfitt fyrir. Við með þrautseigju og þolinmæði að vopni náðum að brjóta þá á bak aftur og byrjuðum að skapa meira þegar það leið á síðari hálfleikinn,“ sagði Rúnar en með sigrinum er KR komið í sterka stöðu fyrir Evrópubaráttuna en liðið er nú tveimur stigum á undan FH sem gerði jafntefli gegn Víkingum á sama tíma.

 

„Þetta er bara eitt skref af þremur sem við þurfum að taka til að komast í Evrópu. Við stöndum ágætlega að vígi,“ sagði Rúnar en KR er þar að auki með betri markatölu og eiga tvo leiki eftir gegn tveimur af liðunum í botnbaráttunni á meðan FH á eftir tvö efstu liðin: Val og Stjörnuna.

 

Í ljósi þess er þá ekki bara hægt að segja að þetta evrópusæti sé nánast komið hjá KR-ingum?

 

„Ég er langt því frá að vera sammála að því. Við erum að spila við Fylki í næstu viku og þeir eru með gott lið. Öll liðin í deildinni eru góð. Þetta er aldrei auðvelt.“

 

Eysteinn Húni: Svekkjandi

Eysteinn Húni, þjálfari Keflvíkinga, var ekki sáttur með hvernig hans menn mættu í leikinn eftir hlé og þá sérstaklega eftir góðan fyrri hálfleik liðsins.


„Við töpuðum gegn betra liði í dag. Þetta var gott fram að hálfleik en einhverra hluta vegna komum við þreyttir inn í seinni hálfleikinn. Þurfum að skoða hvað veldur. Hvort það hafi verið hálfleiksræðan eða eitthvað annað.“

 

Keflavík komst yfir í dag en einungis mínútu síðar var KR búið að jafna. Það hlýtur að hafa verið svekkjandi að fá þá blautu tusku í andlitið?

 

„Það var mjög svekkjandi. Glæsilegt mark hjá honum en við áttum þrjú tækifæri til að stöðva sóknina áður en hann skorar og innan þess ramma sem við teljum okkur geta þannig það voru vonbrigði.“

 

Keflavík er enn án sigurs í deildinni og einungis tveir leikir eftir. Ætlar liðið ekki að vinna allavega einn leik áður en sumarið klárast?

 

„Við stefnum á það en við verðum að gera betur. Við vinnum í því fyrir næsta leik gegn Víkingum. Við vinnum okkar vinnu eins og alltaf, reynum að gera betur og að vaxa. Það verður ekki frí í vikunni, það er á hreinu.“

 

Hólmar Örn: Tveir menn sem seldu sig


„Svekkjandi eins og eftir flesta leiki í sumar. Fyrri hálfleikurinn var fínn. Þeir lágu vel á okkur í seinni en við stóðum það af okkur. Fengum tækifæri en svo skora þeir og þá varð þetta helvíti þungt hjá okkur,“ sagði hreinskilinn Hólmar Örn, leikmaður Keflavíks, eftir tapið í dag.

 

Hann kveðst hafa verið ósáttur að Keflavík hafi ekki náð að koma í veg fyrir jöfnunarmark KR sem Pálmi Rafn skoraði einungis mínútu eftir að Keflavík tók forystuna í fyrri hálfleik.

 

„Tek ekkert af Pálma en það voru tveir menn sem seldu sig of dýrt. Hefði viljað sjá þá standa vaktina betur og ekki gefa Pálma skotið.“

 

Hann segir liðið enn staðráðið í að sigra sína leiki en einungis tveir leikir eru eftir af tímabilinu.

 

„Við förum í næsta leik gegn Víking og ætlum sjálfsögðu að vinna hann.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira