Skoðun

Ívilnun vegna kolefnisbindingar

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Mikilvægi kolefnisbindingar í jarðvegi og gróðri er alþekkt. Hér á landi er unnt að binda milljónir tonna af kolefni úr kolefnisgösum (gróðurhúsalofttegundum) á ári, þegar fram í sækir. Losun nú á Íslandi, að slepptu útstreymi úr framræstu eða illa förnu landi, frá flugvélum og orkufrekum iðnaði, er tæplega 5 milljón tonn á ári. Það bíður okkar margþætt verkefni við að minnka alla losun og binda kolefni að auki.

Ríkið leikur stórt hlutverk í þessum efnum, ásamt sveitarfélögum og almenningi. Að auki verða fyrirtæki, stofnanir og félög að taka til höndum. Samanlagt eru framlög allra annarra en ríkisins, þungvægust í andófinu gegn hraðri loftslagshlýnun. Ríkisvaldið hvetur vissulega til dáða í ótal tilvikum, liðkar fyrir og leggur fram fé til margvíslegra verkefna, ríkisstjórnir setja fram stefnur og markmið í nafni samfélagsins. Núverandi ríkisstjórn stendur við sín markmið.

Ég hef lagt til vinnslu á Alþingi breytingartillögu við lög um tekjuskatt, í samráði við ráðherra, til þess að ívilna lögaðilum, leggi þeir fram fé til kolefnisbindingar, til dæmis skógræktar með ræktendum eða Kolviði og/eða endurheimtar votlendis með Landgræðslunni eða Votlendissjóði. Þannig geta aðilar í atvinnurekstri talið fram greiðslur til bindiverkefna, allt að 0,85% tekna, sem verða undanþegnar tekjuskatti. Í reglugerð verður kveðið nánar á um kröfur um upplýsingaskil þegar gerð er grein fyrir svona framlögum. Meðal annars er æskilegt að framlögin séu liður í umhverfis- eða loftslagsstefnu þess sem bindur kolefni með þessum hætti. Margir þingmenn flytja tillöguna með mér og er það til marks um þverpólitískan vilja á Alþingi. Vonandi nýta margir ívilnunina þegar tillagan, vonandi óbreytt, verður að veruleika.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×