Íslenski boltinn

Fylkir byrjar og endar leiki verst allra en Blikar múra fyrir í fyrri hálfleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lærisveinar Helga Sig þurfa að laga varnarleikinn.
Lærisveinar Helga Sig þurfa að laga varnarleikinn. vísir/Bára
Fylkir er það lið í Pepsi-deildinni sem er búið að fá á sig flest mörk þegar að þrettán umferðum er lokið en varnarleikur liðsins í síðustu fimm leikjum hefur verið sérstaklega skelfilegur.

Fylkismenn eru búnir að tapa fimm leikjum í röð og fá á sig 17 mörk í þessari tpahrinu eða ríflega þrjú mörk á sig að meðaltali í leik. Í heildina er Fylkisliðið búið að fá á sig 28 mörk, tveimur fleiri en Keflavík. Þetta eru tvö neðstu lið deildarinnar.

Samkvæmt Instat sem heldur utan um tölfræði deildarinnar eru Fylkismenn bæði að byrja og enda leikina illa. Árbæingar hafa fengið á sig fimm mörk á fyrstu fimmtán mínútum leikjanna í Pepsi-deildinni, flest allra en Keflavík, KA og KR koma þar næst með fjögur mörk á sig fyrsta korterið.

Mörkin í tölum og mínútum.mynd/instat

Grænir múra fyrir

Fylkir endar leikina einnig mjög illa en þeir hafa fengið á sig flest mörk allra liða á síðasta korterinu eða níu talsins. FH-ingar eru þar næstir á eftir með átta mörk á sig á síðustu fimmtán mínútunum.

Breiðablik hefur fengið á sig lang fæst mörkin eða átta talsins og öll hafa þau komið í seinni hálfleik. Ekkert lið í deildinni hefur komið boltanum í netið hjá Blikunum á fyrstu 45 mínútunum þegar að þrettán umferðir eru búnar.

Fjölnir hefur fengið á sig flest mörk allra í seinni hálfleik eða 17 talsins, tveimur fleiri en Fylkismenn en þau eru slökustu liðin þegar kemur að því að verja markið sitt í seinni hálfleik.

Eitthvað virðist Ólafur Páll Snorrason þurfa að laga hjá sér hálfleiksræðurnar því Fjölnir hefur fengið á sig níu mörk á fyrstu fimmtán mínútum síðari hálfleiks sem eru lang flest allra í deildinni á þeim tíma. Næstu lið í þeirri tölfræði eru ÍBV, KR og Víkingur með þrjú á sig á fyrstu fimmtán mínútum síðari hálfleiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×