Erlent

Duterte segir hermönnum að skjóta konur í píkuna

Samúel Karl Ólason skrifar
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Vísir/AFP
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, sagði hermönnum í síðustu viku að þeir ættu að skjóta uppreisnarkonur í píkuna. Þetta sagði hann í ræðu fyrir framan fyrrverandi uppreisnarmenn þann 7. febrúar. Hann gagnrýndi einnig konur sem ganga til liðs við uppreisnarhópa fyrir að yfirgefa börn sín.

„Segið hermönnunum: Það er að berast ný skipun frá borgarstjóranum. Við munum ekki drepa ykkur. Við munum bara skjóta ykkur í píkuna. Svo það... Ef það er engin píka er þetta gagnslaust,“ sagði forsetinn samkvæmt opinberu eftirriti ræðu hans. Orðinu píka hefur þó verið skipt út fyrir fjögur bandstrik.



Þar sem Duterte talar um borgarstjóra virðist hann vera að ræða um sjálfan sig. Hann var lengi borgarstjóri áður en hann varð forseti Flippseyja.

Forsetatíð Duterte hefur einkennst að ofbeldi og hefur hann ítrekað talað með niðrandi hætti um konur. Eins og tekið er fram í frétt Washington Post grínaðist hann með að hafa ekki geta verið fyrstur að nauðga ástralskri konu sem var rænt í Filippseyjum og nauðgað af ræningjum sínum. Hann hefur einnig sagt hermönnum sínum að nauðga konum í átökum og tjáir sig ítrekað um myndarleika kvenna sem hann hittir. Að mestu virðist það eiga við konur í stjórnmálum sem gagnrýna hann eða stefnumál hans.



Hans helsta kosningaloforð var að allir fíkniefnasalar og notendur í Filippseyjum yrðu drepnir. Frá því hann tók við völdum hafa þúsundir verið skotnir til bana af lögreglu eða vopnuðum gengjum sjálfskipaðra löggæslumanna.

Alþjóðaglæpadómstóllinn hefur tekið málið til skoðunar.


Tengdar fréttir

Duterte segist hafa drepið mann sem táningur

Forsetinn, sem staddur er á fundi APEC, hótaði jafnframt að slá til starfsmanna Sameinuðu þjóðanna sem hafa mannréttindamál á sinni könnu, ef þeir yrðu á vegi hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×