Lotta, pabbi hennar, bróðir og vinkona fjölskyldunnar mættu með hestakerruna við Rangárhöllina þar sem Lotta og Tenór bíða eftir að fá að sýna listir sínar. Fyrst þarf að klæða Tenór upp, hann fær sérstaka andlitsgrímu og það þarf að spenna gjörðina vel og hafa allt klárt áður en sýningin hefst í höllinni. Fjölskyldan og Tenór búa á bænum Búð í Þykkvabæ.

Tenór þreytist ekki á að hlaupa með Lottu fram og til baka í reiðhöllinni enda ná þau einstaklega vel saman og treysta hvort öðru. Lottu finnst ekkert mál að halda jafnvægi á Tenór þó hann hlaupi hratt með hana.
Hún segir hesta ótrúlega skemmtilega enda er hún búin að ákveða að verða hestakona og dýralæknir þegar hún verður fullorðin. Hún og Tenór hafa verið pöntuð á nokkrar reiðsýningar á næstunni þar sem þau ætla að halda áfram að sýna listir sínar.