„Hún hefur fengið það staðfest að það sé laust pláss inni á Grensás. Hún er búin að vera núna úti á Spáni á sambærilegri endurhæfingardeild sem hefur bara gengið vel. Hún heldur bara áfram sinni endurhæfingu hér heima,“ segir Páll Kristjánsson lögmaður Sunnu Elvíru í samtali við fréttastofu.
Páll telur að hún komi heim með sjúkraflugi. En á sínum tíma var safnað fyrir sjúkraflugi, en kostnaðurinn við það var áætlaður um 5,5 milljónir íslenskra króna.
„Náttúrulega á sínum tíma þegar hún lendir í slysinu þá lá önnur staða uppi. Þá lá hún stórslösuð úti og fékk ekki viðeigandi læknismeðferð og þá var unnið að því að fá hana heim. Það var keypt þessi sjúkraflugvél og ég veit ekki betur en að slíkt standi ennþá til. Auðvitað er náttúrulega allt önnur staða uppi hjá henni núna en var á þeim tíma.“
Bjartara yfir henni
Fjölskyldan hefur ekki gefið upplýsingar um það hversu miklu var safnað eða hvað flugið á morgun muni kosta. Páll segir að Sunna Elvíra takist nú á við það áfall að lamast varanlega.„Henni líður betur í dag heldur en á sínum tíma. Þetta er í rétta átt, endurhæfing gengur vel en hún er náttúrlega bara að takast á við það áfall að vera varanlega slösuð, búa við varanlegar afleiðingar þessa slyss. Það er bara næsta skref að byggja sig upp og halda áfram en það er bjartara yfir henni en fyrst allavega.“
Hann segir að ekkert mál sé í gangi á hendur Sunnu Elvíru hvorki hér á landi né á Spáni. Mál Sunnu Elvíru er í ferli hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu. En samkvæmt upplýsingum þaðan hafa spænsk yfirvöld sýnt jákvæð viðbrögð varðandi afhendingu gagna. Málið sé hins vegar ekki komið formlega í hendur lögreglunnar hér á landi. Réttarstaða hennar hér muni skýrast þegar öll gögn að utan liggi fyrir. Eiginmaður Sunnu Elvíru situr enn í gæsluvarðhaldi.