Innlent

Skutlari stöðvaður með fullan bíl af bjór

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skutlarinn hafði rúntað um miðborgina þegar lögreglan náði í skottið á honum.
Skutlarinn hafði rúntað um miðborgina þegar lögreglan náði í skottið á honum. Vísir/KTD
Lögreglan stöðvaði nokkra ökumenn í nótt sem grunaðir eru um margvísleg umferðarlagabrot. Einn þeirra hafði verið að aka um í miðborginni skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt en hann er grunaður um að vera svokallaður skutlari, þ.e. einstaklingur sem stundar farþegaflutning í atvinnuskyni án þess þó að hafa réttindi til þess.

Ekki aðeins hafði ökumaðurinn skutlast með fólk fyrir pening heldur fann lögreglan í bílnum „talsvert af bjór“ sem hann hafði verði að selja áhugasömum. Vart þarf að taka fram að til þess hafði hann ekki heldur tilskilin leyfi. Ekki kemur fram hvort maðurinn hafi verið handtekinn eða mál hans leyst með öðrum hætti.

Þá var ökumaður stöðvaður eftir eftirför skömmu eftir miðnætti eftir að hafa ekið á móti rauðu ljósi á 125 kílómetra hraða á klukkustund. „Þegar ökumaður stöðvaði bifreið sína kom í ljós að hann var sviptur ökuréttindum og reyndist vera undir áhrifum áfengis og fíkniefna,“ segir í skeyti lögreglunnar en ökumanninum var sleppt að lokinni sýnatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×