Erlent

Púað á Trump í Davos

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump sagði samband sitt við fjölmiðla alltaf hafa verið gott þegar hann var viðskiptamaður og hann hafi iðulega fengið jákvæða umfjöllun.
Trump sagði samband sitt við fjölmiðla alltaf hafa verið gott þegar hann var viðskiptamaður og hann hafi iðulega fengið jákvæða umfjöllun. Vísir/EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er nú staddur á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss. Þar flutti hann ræðu og hvatti fjárfesta til að eyða peningum í Bandaríkjunum. Hann lofaði skattabreytingar Repúblikanaflokksins og sagði mikla uppsveiflu í Bandaríkjunum.

„Bandaríkin fyrst þýðir ekki Bandaríkin ein,“ sagði Trump. Hann talaði um nauðsyn þess að gera sanngjarna viðskiptasamninga á milli ríkja.



Forsetinn varði þó einnig tíma í Davos til að gagnrýna Demókrataflokkinn og sömuleiðis fjölmiðla. Við það voru viðbrögðin ef til vill ekki þau sömu og Trump er vanur þegar hann gagnrýnir fjölmiðla á kosningafundum sínum.

Að þessu sinni var púað á Trump.

Hann sagði samband sitt við fjölmiðla alltaf hafa verið gott þegar hann var viðskiptamaður og hann hafi iðulega fengið jákvæða umfjöllun. Það hafi þó breyst þegar hann hóf framboð sitt. Þá hafi hann áttað sig á því að blaðamenn væru „andstyggilegir“, „kvikindislegir“, „grimmir“ og „falskir“.

Svo gaf hann í skyn, ranglega, að verið væri að slökkva á myndavélum fjölmiðla í salnum, eins og hann hefur svo oft gert áður.

Samkvæmt frétt Huffington Post segja bandarískir blaðamenn að erlendir blaðamenn hafi púað á forsetann.

Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar hefur verið mikið um mótmæli í Davos vegna Donald Trump. Hann sagði hins vegar að „gífurlega stór hópur fólks“ hefði tekið honum fagnandi. Þar að auki sagði Trump, sem hefur aldrei farið á þessa ráðstefnu áður, að slíkur fjöldi hefði aldrei sést á ráðstefnunni áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×