Innlent

Réðst á foreldra sína

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Árásin átti sér stað í Hlíðahverfi í Reykjavík.
Árásin átti sér stað í Hlíðahverfi í Reykjavík. Vísir/vilhelm
Ungur maður í annarlegu ástandi réðst á foreldra sína á heimili þeirra í Hlíðahverfi Reykjavíkur á þriðja tímanum í nótt. Í dagbók lögreglunnar er hann jafnframt sagður hafa ógnað þeim með eggvopni áður en hann var handtekinn á vettvangi. Maðurinn var fluttur í fangageymslu þar sem hann hefur fengið að sofa úr sér og má gera ráð fyrir því að hann verði yfirheyrður síðar í dag.

Lögreglan fékk að sama skapi þrjár tilkynningar um innbrot og þjófnaði í nótt. Fjölmiðlar hafa að undanförnu greint frá innbrotafaraldri á höfuðborgarsvæðinu og því rétt að fara að öllu með gát. Í gærkvöldi og nótt var brotist inn í heimahús í Grafarvogi þar sem stolið var verðmætum, í gistiheimili í Kópavogi voru lyklar teknir ófrjálsri hendi (að hverju fylgir ekki sögunni) og þá var einnig brotist inn í fyrirtæki í Súðarvogi. Þar var búið að róta og skemma innanstokksmuni en ekki er vitað að svo stöddu hvort og þá hverju var stolið.

Þá voru fimm ökumenn stöðvaðaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna, sem og einn ofurölvi karlmaður sem hafði verið vísað úr strætisvagn í Hamraborg fyrir að drekka áfengi í vagninum. Hann hefur fengið að sofa úr sér í fangageymslu í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×