Innlent

Færi ekki fram úr ef búið væri að útskýra alla hluti

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Kári segir niðurstöður rannsóknarinnar sýna hversu mikilvægt umhverfið sé í uppeldi barna.
Kári segir niðurstöður rannsóknarinnar sýna hversu mikilvægt umhverfið sé í uppeldi barna. vísir/stefán
„Það sem okkur tókst að vissu leyti að gera var að búa til aðferð til þess að mæla áhrif sem við höfum alltaf vitað að væru til staðar,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við Fréttablaðið. Íslensk erfðagreining birti í gær rannsókn sína á þúsundum Íslendinga í tímaritinu Science þar sem leitað er svara við þeirri spurningu hvernig uppeldi barna gangi í arf. „Þegar barn er getið fær það helming erfðamengis frá móður sinni og hinn helminginn frá föður. Við leituðumst eftir því að svara því hvaða áhrif sá helmingur erfðamengis sem barn fær ekki frá foreldrum hefur á örlög þess.

Við sýndum fram á að það [erfðamengið] hefur alls konar áhrif. Til að mynda á menntun, hæð, þyngd, líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og fíknisjúkdómum.“ En hversu mikil eru áhrifin eiginlega? „Þegar kemur að menntun, til dæmis, þá eru áhrif þess helmings erfðamengisins sem ekki fer í barnið um 30 prósent á móti þeim helmingi sem barnið fær frá foreldrunum.“ Kári segir þetta sýna hversu mikil áhrif umhverfisins eru.

Sjá einnig: Erfðaefni sem fer ekki til barns hefur samt mikil áhrif á örlög þess

Hann segir að með niðurstöðu rannsóknarinnar berist böndin enn og aftur að hinu dularfulla stjórntæki mannsins – heilanum. Áhrifin segir Kári koma í gegnum heilann sem við botnum lítið í. „Við höfum ekki hugmynd um hvernig heilinn býr til hugsanir eða tilfinningar – við getum ekki einu sinni skilgreint þær.“ Það sem sé grátlegt við það er að hugsanir okkar og tilfinningar skilgreina okkur sem dýrategund og sem einstakling innan þeirrar tegundar.

Hann segir okkur því vera á býsna frumstæðum stað þegar kemur að skilningi á okkur sjálfum. „Það er svo margt ógert sem á eftir að útskýra og þetta er svo spennandi. Ég myndi sjálfur ekki nenna fram úr rúminu á morgnana ef það væri búið að útskýra þetta allt saman,“ segir Kári á gamansömum nótum að lokum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×