Menning

Beittur texti með sérstökum bragðauka

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Leikstjórinn Kolfinna og leikkonurnar Elma Lísa, Arndís Hrönn, María Heba og Jóhanna Friðrikka stilltu sér upp á Litla sviðinu.
Leikstjórinn Kolfinna og leikkonurnar Elma Lísa, Arndís Hrönn, María Heba og Jóhanna Friðrikka stilltu sér upp á Litla sviðinu. Vísir/Anton Brink
Litla svið Borgarleikhússins. Tvö eldhús. Tvær konur í hvoru. Pitsur eru pantaðar á báðum heimilum svo til samtímis, sakleysislegar aðgerðir sem enda þó sem drama. Hér stendur yfir æfing á Lóaboratoríum, fyrsta leikriti Lóu Hjálmtýsdóttur. Hún er þekktur teiknimyndahöfundur og söngkona hljómsveitarinnar FM Belfast.

Til hliðar við mig sitja tveir menn, ljósa- og hljóðmaður, og framan við þá leikstjórinn sem lætur endurtaka pitsupantanirnar aftur og aftur. Engu má skeika í tímasetningum.

En í hádegishléi gefst kostur á smá spjalli. Fyrst við Kolfinnu Nikulásdóttur leikstjóra. „Teiknimyndasögurnar hennar Lóu byggjast á mismunandi erkitýpum og hversdagsleikinn er ýktur. Í leikritinu hefur hún búið til fjóra karaktera, konur sem búa tvær og tvær saman, systur í annarri íbúðinni og mæðgur í hinni,“ lýsir Kolfinna og heldur áfram: „Sambandið getur verið stirt innan heimilanna en þó er alltaf ljúfsár léttleiki í bland. Fjölskyldumynstur eru dregin fram og sýnd á kómískan hátt og á köflum súrrealískan.“

Hún segir átta vikna æfingatíma að ljúka. Er hún ekki að verða leið á sumum frösunum? „Nei, ótrúlegt en satt. Maður tengir svo auðveldlega við brandarana hennar Lóu og leikararnir bæta miklu við.“

Leikfélagið Sokkabandið stendur að sýningunni og nú er komið að leikurunum að kynna sína karaktera. Fyrst Arndísi Hrönn Egilsdóttur. „Þetta er dóttir mín,“ segir hún og bendir á Jóhönnu Friðrikku Sæmundsdóttur. „Hún er nýflutt inn á mig og mér finnst það dálítið töff stundum – þó mér þyki alveg vænt um hana. Ég er bókaútgefandi og mér finnst gott að fá mér rauðvín og bara?… það er álag að fá fjörgamla dóttur sína aftur heim.“

Jóhanna grípur boltann. „Já, mér finnst móðir mín ekki hugsa nógu vel um sig og hef áhyggjur af henni. Lífsmynstur hennar er bara almennt ekki til fyrirmyndar en hún misskilur velvild mína og finnst ég frekar leiðinleg.“

„Hún er leiðinleg,“ segir Arndís Hrönn – með áherslu, „og svo er hún ekki eins smart og ég. Mér finnst hún mætti hafa sig aðeins meira til.“ Fer svo úr karakternum og bætir við: „Þetta er klassískt mæðgnasamband, stundum baneitrað, stundum alveg næs.“

Jóhanna tekur undir það. „Já, mæðgnasamband er flókið og mér finnst ekki nægilega fjallað um það í samfélaginu en hér segjum við frá einu dæmi og það er gaman að vera með í því.“

„Lóaboratoríum fjallar líka um nágrannana,“ segir Elma Lísa Gunnarsdóttir. „Við búum allar í sama húsi og við erum systur, ég og María Heba Þorkelsdóttir.“

„Sko, ég er að flytja inn til systur minnar, nýfráskilin,“ segir María Heba, „er eiginlega að koma að hjálpa henni, hún er lasin. „…?þetta er íbúð foreldra okkar, það er ekki búið að skipta upp búinu,“ útskýrir Elma Lísa og bætir við: „Ég er þunglynd og vil bara vera undir sæng en systir mín er vinnustaðagrínari svo við erum ólíkar konur.“

Elma Lísa horfir nú á leikritið úr fjarlægð. „Það er þarna speglun. Dóttirin og systirin eru báðar að koma inn í hið einangraða líf þeirra sem fyrir eru. Því verða eitruð sambönd á báðum heimilum en falleg líka. Bara eins og lífið er. Samskipti geta verið sorgleg og flókin, falleg og fyndin, allt í senn.“

Arndís Hrönn kveðst lengi hafa hrifist af bókum Lóu Hjálmtýs og segir gaman að takast á við þetta verk. „Lóa skrifar svo beittan texta og þar er sérstakur bragðauki sem er svo áhugaverður. María Heba kom auga á þetta. Hún á hugmyndina að leikritinu.“

María Heba kannast við það og segir Lóu hafa tekið ábendingunni vel. „Sokkabandið var líka til í tuskið, síðan eru liðin þrjú ár og nú er sýningin Lóaboratoríum að verða að veruleika.“

Elma Lísa bendir á að þær séu að vinna með góðu fólki. „Sigríður Soffía sér um sviðsmynd, Valdimar Jóhannsson um lýsingu og Ásrún Magnúsdóttir um hreyfingar. Árni og Lóa koma bæði að sýningunni, hún sér um textann og hann tónlistina. Uppsetningin er í anda Sokkabandsins. Þetta er sú sjöunda í röðinni og við erum alltaf með verk eftir íslenska höfunda.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.