Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fjölnir - Keflavík 0-0 │Stig sem gerir lítið fyrir bæði lið

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/bára
Stigaþurrkur Keflavíkur er búinn í bili eftir 0-0 jafntefli gegn Fjölni í Grafarvogi. Fjölnismenn voru heilt yfir duglegri að koma sér í færi en Sindri Kristinn Ólafsson markmaður Keflavíkur átti sinn besta leik í sumar og átti stóran hluta í að tryggja Keflvíkingum stig í kvöld.

 

Fjölnismenn áttu nokkur dauðafæri hér í kvöld en náðu þó ekki að koma boltanum í netið. Keflvíkingar áttu líka eitthvað af færum en Fjölnir var heilt yfir betra liðið. Það gekk hinsvegar illa hjá Fjölnismönnum að gera eitthvað úr þessum færum sínum. Keflvíkingar áttu oft erfitt með að spila almennilega fram völlinn en náðu þó nokkrum sinnum að skapa hættu.

 

Fjölnismenn voru klárlega betri aðilinn í fyrri hálfleik en þeir voru nokkrum sinnum nálægt því að komast yfir. Igor Jugovic átti hörkuskot rétt fyrir utan teig á 12. mínútu sem Sindri varði meistaralega í marki Keflavíkur. Á 32. mínútu var Valmir Berisha með hörkuskot fyrir utan teig Keflavíkur sem fór eins og svo mörg skot í þessum leik yfir markið. Besta færi fyrri hálfleiks kom á 35. Mínútu þegar Þórir Guðjónsson framherji Fjölnis skallaði boltanum yfir Sindra en boltinn fór síðan í slánna og út.

 

Keflvíkingar voru lítið að skjóta á markið í fyrri hálfleik og þegar það gerðist var oftast um að ræða langskot sem fóru ekki á rammann. Best af þeim skotum var örugglega skot sem Hólmar Örn tók rétt fyrir áður en fyrri hálfleik lauk sem var svona hálfum metra frá stönginni.

 

Keflvíkingar komu mótiveraðir inn í seinni hálfleik og var Frans Elvarsson nálægt því að komast í dauðafæri eftir að stela boltanum á hættulegum stað eftir hápressu. Næstu 20 mínútur var hinsvegar einstefna í átt að marki Keflavíkur en Fjölnismenn náðu aldrei að koma boltanum í markið. Besta færi leiksins var á 58. mínútu þegar Bergsveinn Ólafsson hægri bakvörður Fjölnis gaf boltann fyrir en Þórir Guðjónsson skallaði boltanum framhjá markinu.

 

Seinasta hálftíman gerðu bæði lið sig nokkrum sinnum líkleg. Hallvarður Óskar og Birnir Snær voru hættulegustu menn Fjölnis en báðir voru að sækja vel upp vængina. Keflavík náði nokkrum sinnum að skapa usla í teig Fjölnismanna með löngum innköstum frá Anton Frey Hauks Guðlaugssyni en ekkert dauðafæri sem kom upp úr því. Helgi Þór Jónsson átti besta færi Keflvíkinga undir lok leiks þegar hann skaut inni í teig Fjölnismanna eftir stungusendingu, Þórður Ingason náði hinsvegar að verja skotið.

 

Af hverju var jafntefli?

Fjölnismenn náðu ekki að skora þrátt fyrir að vera betri aðilinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Markmennirnir voru báðir mjög fínir, sérstaklega Sindri í markinu hjá Keflavík en hann ætti að fá yfirvinnukaup fyrir þennan leik.

 

Hallvarður Óskar og Helgi Þór komu báðir inná og voru sprækir fyrir sitt hvort liðið.

Hvað gekk illa?

Uppspil meðfram jörðinni hjá Keflavík var ekki gott í þessum leik og áttu þeir erfitt með að tengja saman sendingar.

 

Þórir Guðjónsson hefur örugglega aldrei áður skallað boltanum í átt að markinu í leik án þess að skora og mun sennilega aldrei aftur gera það.

Hvað gerist næst?

Keflvíkingar taka á móti KA á heimavelli á meðan Fjölnismenn fara í Vesturbæinn í næsta leik. Bæði lið að reyna að koma sér upp úr fallsæti.

 

Ólafur Páll: Hundóánægður að taka ekki þrjústig

„Við vorum bara sterkari aðilinn allan leikinn og hundóánægður að taka ekki þrjú stig.” hafði Ólafur Páll Snorrason þjálfari Fjölnis að segja eftir leikinn.

 

„Óheppnir og markmaðurinn þeirra stóð sig vel, en við erum bara stundum að negla boltanum, ætlum að rífa netið í staðinn fyrir að leggja hann í markið sem að gengur oft betur, það er kannski eina ástæðan, en ég meina við skápum okkur fullt af færum og óheppnir að skora ekki.” Sagði Ólafur um mögulegar ástæður fyrir því afhverju hans menn náðu ekki að boltanum í netið en þeir fengu nóg af færum til þess í leiknum.

 

„Ég er ekki byrjaður að hugsa þann leik en, já já, fyrst þú nefnir það þá er ég spenntur.” sagði Ólafur um næsta leik liðsins sem er úti gegn KR.

 

Sindri Kristinn: Virðum auðvitað stigið

„Ég er ánægður með varnarleikinn og að við héldum loksins hreinu. Annað hreina lakið okkar í sumar en við komum hérna til að vinna og ég er mjög ósáttur með að fara bara með eitt stig í burtu, en við virðum auðvitað stigið og tökum öll þau stig sem eru í boði.” sagði Sindri Kristinn Ólafsson markmaður Keflavíkur um leikinn hér í kvöld.

 

„Ég er bara ágætlega sáttur með mína frammistöðu, alltaf gott að halda hreinu, strákarnir bökkuðu mig líka upp þeir vörðu fullt af skotum, svo jú ég er ágætlega sáttur með mína frammistöðu hér í dag.” en Sindri átti stórleik í marki Keflavíkur.

 

„Mjög ánægður, þeir eru með mikla baráttu. Ágúst, Helgi, Ivan og Aron. Þeir voru flottir og komu með nýtt blóð inn í þetta.” sagði Sindri um nýju liðsfélaga sína.

 

„Ég lofaði í viðtali við fótbolta.net við Keflavíkinga að við kæmum með sigurinn í næsta heimaleik svo við verðum að sækja sigurinn þar.” sagði Sindri þegar hann var spurður hvort fyrsti sigur liðsins kæmi í næsta leik sem er á heimavelli gegn KA.

 

Anton Freyr: Nei, engar áhyggjur

„Nei ég get ekki sagt það, framlagið var alveg til fyrirmyndar en við hefðum átt að troða inn einu helvítis marki.” sagði Anton Freyr aðspurður hvort hann væri ánægður með leikinn hér í kvöld.

 

„Já það er yndislegt, það hefði verið skemmtilegra ef við hefðum unnið þennan leik.” sagði Anton aðspurður hvernig væri að vera kominn aftur í Fjölni en þetta var hans fyrsti leikur fyrir Fjölni í sumar eftir að hafa verið á láni hjá Leikni.

 

„Alltaf gaman að mæta þessum sterkustu liðum á Íslandi og það verður spennandi leikur.” sagði Anton um næsta leik gegn KR.

 

„Nei, engar áhyggjur.” sagði Anton aðspurður hvort hann hefði einhverjar áhyggjur af því að liðið væri í fallsæti eins og staðan er núna.

 

Eysteinn Húni: Hefði viljað sjá sigur

Eysteinn Húni Hauksson Kjerúlf þjálfari Keflavíkur var bjartsýnn um framhaldið eftir jafntefli gegn Fjölni í kvöld á Extra-vellinum. En liðið náði í sitt fyrsta stig í átta umferðum hér í kvöld

 

„Já, en ég hefði viljað fá sigur miðað við framlagið í leiknum en ég býst við að þetta hafi verið sanngjörn úrslit.” svaraði Eysteinn aðspurður hvort það væri rétt að óska honum til hamingju með stigið hér í kvöld en þetta var fyrsta stigið sem liðið nær sér í eftir að hann tók við sem þjálfari í sumar.

 

Eysteinn var spurður hvað honum fannst um frammistöðuna hjá þeim leikmönnum sem komu til liðs við Keflavíkur í lok gluggans og eru að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið í sumar en þeir Aron Kári, Ágúst Leó, Helgi Þór og Ivan Aleksic komu allir á láni og spiluðu sinn fyrsta leik hér í kvöld.

 

„Mér fannst viðhorfið hjá þeim frábært og viðhorfið hjá þeim að koma til okkar eins og staðan er finnst mér mjög gott. Þeir eru komnir hérna til þess að standa sig með okkur og ér mjög ánægður með þeirra framlag í dag. Sérstaklega við erum með mjög ungt miðvarðarpar og ég efast um að það hafi yngra miðvarðarpar spilað saman í efstu deild og þeir stóðust allar árásirnar í dag og það var áhætta sem við tókum sem ég sé ekki eftir.”

 

Aron Kári er fæddur árið 1999 og Ísak Óli fæddur árið 2000 en þeir eiga báðir leiki með yngri landsliðum Íslands.

 

Aðspurður hvort stigin myndu halda áfram að koma, svaraði Eysteinn.

 

„Ég segi bara það að við sýndum það í dag að það er enginn búinn að kasta inn neinu handklæði og ef að við getum haldið áfram að halda hreinu að fá á okkur færri mörk. Við fórum aðeins yfir það og síðan að ég tók við höfum við fengið á okkur 7 mörk og að mínu mati eru þetta allt mörk sem að okkar geta kemur í veg fyrir ef við erum með kveikt á öllum perum og í dag hafði ég engar kvartanir og við ef að við getum haldið þessu áfram þá er ég viss um að hitt kemur í kjölfarið.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira