Fimm úkraínskir hermenn hafa fallið í átökum við aðskilnaðarsinna sem studdir eru af Rússum í austurhluta Úkraínu. Varnarmálaráðuneyti ríkisins segir þar að auki að sjö hafi særst í árás aðskilnaðarsinna.
Bardagar munu hafa staðið yfir í fimm klukkustundir nærri Krymske. Þar féllu fjórir hermenn en sá fimmti féll í stórskotaárás.
Ríkisstjórn Úkraínu og aðskilnaðarsinnar saka hvorn annan reglulega um að rjúfa vopnahlé á milli fylkinga.
Samkvæmt BBC eru aðskilnaðarsinnar sagðir hafa reynt að ná tökum á varðstöðum hersins á þjóðvegi á víglínunni. Þá sagði forseti Úkraínu, Petro Poroshenko, að skotið hefði verið á hermennina með stórskotaliði og sagði hann byssurnar koma frá Rússum.
Fylkingarnar hafa verið að semja um nýtt vopnahlé sem á að taka gildi þann 29. ágúst.
Rúmlega tíu þúsund manns hafa fallið í átökunum sem hófust í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga árið 2014.

