Ellen Bára Valgerðardóttir, ljósmóðir á Landspítalanum og sjálfstætt starfandi ljósmóðir í heimaþjónustu, segir að minnst 60 heimaþjónustuljósmæður hafi ákveðið að leggja niður störf. Hún segir að mikil samstaða ríki innan stéttarinnar og hún býst við því að hinar 30 sem skráðar eru fylgi þeirra fordæmi.

„Þetta verður gríðarlega kostnaðarsamt fyrir meðgöngu- og sængurlegudeild að hafa konur inniliggjandi sængurlegu í fjóra til fimm daga af því engin er heimaþjónustan.“ Þetta sé það eina í stöðunni fyrir nýbakaða foreldra fyrir utan alvarlegri kost sem sé þá að útskrifa móður og nýbura og hafa þau án eftirlits.
Er það ekki varhugavert?
„Jú, þetta er náttúrulega grafalvarlegt mál en eitthvað þarf að gera.“
Eruð þið búnar að tilkynna yfirvöldum að þið hyggist leggja niður störf?
„Já það er búið að senda þetta á Svandísi Svavarsdóttur og verið er að tilkynna deildunum okkar á Landspítalanum að frá og með morgundeginum verði þetta svona. Þetta bitnar mest á nýbökuðum foreldrum og meðgöngu-og sængurlegudeild. Þú getur ekki útskrifað, allavega frumbyrjur, svona fljótt heim eins og hefur verið gert á meðan að heimaþjónustan hefur verið.“
Ellen segir að heimaþjónustuljósmæður hafi samið við Sjúkratryggingar Íslands og að samningurinn hafi verið sendur til ráðuneytisins fyrir páska. Hún segir að heimaþjónustuljósmæður hafi ekkert heyrt frá ráðuneytinu síðan.
„Ég veit ekki hvort þeir séu að bíða bara eftir því að samningar náist við ríkið og ljósmæður almennt en Sjúkratryggingarnar voru búnar að samþykkja nýjan samning við okkur og við búnar að samþykkja hann og átti bara eftir að senda upp í ráðuneytið sem þetta liggur þar núna.“
Ellen segir að heimaþjónustuljósmæður séu lægst launuðu verktakar á landinu.
Ekki náðist í heilbrigðisráðherra við gerð þessarar fréttar.