Innlent

Banaslys í Kirkjufelli

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi slyssins í morgun.
Frá vettvangi slyssins í morgun. Vísir
Banaslys varð í hlíðum Kirkjufells í Grundarfirði í morgun þegar erlendur ferðamaður, sem hafði orðið viðskila við félaga sinn, féll fram af klettum. Fallið var hátt og var hann látinn þegar að honum var komið. Björgunarsveitarmenn eru að aðstoða við flutning hins látna af fjallinu og lögreglan á Vesturlandi rannsakar tildrög slyssins, sem varð á ellefta tímanum í morgun.

Mikill viðbúnaður var við Kirkjufell í morgun. Í fyrstu voru fimm sérhæfðir fjallabjörgunarmenn sendir með þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-SYN og var henni lent við Kirkjufell skömmu fyrir hádegi. Mikill vindur við Kirkjufell leiddi hins vegar til þess að ekki var hægt að notast við þyrluna á vettvangi. Því var óskað eftir fleiri björgunarsveitarmönnum við að bera hinn látna niður.

Kirkjufell er mjög bratt og því er erfitt fyrir björgunarsveitarmenn að athafna sig í hlíðum fjallsins.

Þetta er annað banaslysið í Kirkjufelli á rúmu ári. Síðasta sumar lést pólsk kona þegar hún féll um fimmtíu metra í fjallinu.

Uppfært: Landhelgisgæslan segir að fimm sérfæðir fjallbjörgunarmenn hafi farið með þyrlunni í dag, ekki tveir eins og áður hafði komið fram




Fleiri fréttir

Sjá meira


×