Innlent

Aukning um 4.500 tonn hjá Arnarlaxi í umhverfismat

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Víkingur Gunnarsson er framkvæmdarstjóri Arnarlax.
Víkingur Gunnarsson er framkvæmdarstjóri Arnarlax. Fréttablaðið/Anton Brink
Fyrirhuguð framleiðsluaukning um 4.500 tonn hjá Arnarlaxi í Arnarfirði fer í umhverfismat samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Tilkynning um fyrirhugaða framleiðsluaukningu barst stofnuninni í desember síðastliðnum en með aukningunni færi framleiðslan upp í 14.500 tonn.

Ekki er um fjölgun eldissvæða að ræða heldur felst aukningin í fjölgun kvía á núverandi svæðum um fjórar kvíar. Nota á kynbættan eldislax af norskum uppruna og áætlað er að við framleiðsluaukninguna muni fóðurnotkun aukast um 6.000 tonn sem verði eftir aukninguna um 17.000 tonn á ári.

Óskað var eftir umsögnum um fyrirhugaða framleiðsluaukningu frá sveitarfélögum á svæðinu og stofnunum sem málið varðar.

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að óvissa sé um áhrif aukningarinnar en hún kunni að hafa í för með sér veruleg neikvæð á umhverfi og lífríki Arnarfjarðar.

Gera verði ráð fyrir að eldislax sleppi úr kvíum og leiti í laxár í nágrenni eldissvæða og með tilliti til reynslunnar frá Noregi megi gera ráð fyrir að fjöldi strokulaxa verði ekki undir 300 við eldi hverrar kynslóðar.

Einnig sé óvissa um áhrif aukningarinnar og samlegðaráhrif með öðru eldi á villtan lax með tilliti til erfðablöndunar. Einnig sé líklegt að aukið eldi muni valda auknu álagi á villta laxfiska í Arnarfirði.

Þá telur Skipulagsstofnun fyrirséð að lyfjum verði beitt til að halda laxalús niðri og möguleg framleiðsluaukning geti því haft áhrif á rækjustofna í Arnarfirði.




Tengdar fréttir

Fjárfestar í fiskeldi slá áformum um uppbyggingu á frest

Formaður Landsambands fiskeldisstöðva segir fjárfesta hafa slegið áformum um frekari uppbyggingu í laxeldi á frest eftir að Hafrannsóknarstofnun ákvað að endurskoða ekki áhættumat vegna sjókvíaeldis á laxi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×