Fyrsti hringurinn í gær var mjög stöðugur hjá Ólafíu og kláraði hún hann á einu höggi undir pari.
Hringurinn í dag byrjaði mjög vel, Ólafía fékk pör á fyrstu fjórum holunum áður en hún sló fyrir tveimur fuglum á næstu þremur holum og kláraði fyrri níu holurnar á tveimur höggum undir pari.
Seinni níu voru nokkur rússíbanareið, hún fékk tvo skolla og þrjá fugla, og kom í hús á þremur höggum undir pari í dag, samtals fjórum höggum undir pari í heildina í mótinu.
Þegar Ólafía lauk keppni var hún jöfn í 15. - 24. sæti, fjórum höggum frá Thidapa Suwannapura og Caroline Hedwall sem deila forystunni. Því skal þó haldið til haga að Ólafía var á meðal fyrstu kvenna út í morgun og því eiga margir keppendur eftir að ljúka keppni.
Ólafía er þó örugg í gegnum niðurskurðinn, sem er við parið. Ólafía hefur ekki átt góðu gengi að fagna undanfarið og er þetta aðeins í annað skiptið sem hún kemst í gegnum niðurskurðinn síðan í byrjun maímánaðar.
