Hið minnsta níu ökumenn voru stöðvaðir í nótt, grunaðir um margvísleg umferðarlagabrot. Flestir hinna brotlegu eru taldir hafa ekið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
Bifreið var til að mynda stöðvuð á Nýbýlavegi á tólfta tímanum í gærkvöld eftir að ökumaður hennar hafði virt hina svokölluðu „hægri reglu“ á gatnamótum að vettugi. Þegar lögreglumenn gáfu sig á tal við hann þótti ljóst að ökumaðurinn var ekki í ökuhæfu ástandi og þar að auki virðist hann aldrei hafa öðlast ökuréttindi.
Þá var skráningarnúmer bifreiðar á Tryggvagötu klippt af þegar í ljós kom að hún reyndist ótryggð. Skráningarnúmer annarra bifreiðar, eða skortur á þeim réttara sagt, kom einnig öðrum ökumanni í klandur sem ekið hafði um Langatanga.
Lögreglumenn stöðvuðu för bifreiðarinnar þegar þeir sáu að ekkert skráningarnúmer var framan á henni. Eftir spjall við ökumanninn var hann leiddur upp í lögreglubíl, enda talið augljóst að hann væri undir áhrifum einhvers konar fíkniefna.
Að frátöldum umferðarlagabrotum þá komst einn einstaklingur í kast við lögin fyrir brot á vopnalögum við Þórðarsveig í Grafarholti. Hann er sagður hafa verið handtekinn og fluttur, í annarlegu ástandi, í næsta fangaklefa. Ekki fylgir sögunni hvort hann hafi ógnað fólki eða um hvaða vopn ræðir.
Stútar undir stýri í nótt
Stefán Ó. Jónsson skrifar
