Erlent

Fjölgun jepplinga vinnur gegn samdrætti í losun

Kjartan Kjartansson skrifar
Vinsældir jepplinga hafa farið vaxandi um allan heim. Þeir eyða að jafnaði um 30% meira en minni bílar. Aukin notkun jepplinga vinnur þannig upp á móti ávinningi af minni útblæstri frá sparneytnari bensínbílum, raf- og tvinnbílum.
Vinsældir jepplinga hafa farið vaxandi um allan heim. Þeir eyða að jafnaði um 30% meira en minni bílar. Aukin notkun jepplinga vinnur þannig upp á móti ávinningi af minni útblæstri frá sparneytnari bensínbílum, raf- og tvinnbílum. Vísir/AFP
Ein af hverjum þremur bifreiðum sem seldar voru í heiminum í fyrra var jepplingur. Vinsældir jepplinganna þýða að hægar gengur að draga úr eldsneytiseyðslu bifreiða en áður og þar með úr losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni.

Samkvæmt tölum bifreiðarannsóknamiðstöðvarinnar JATO Dynamics hefur markaðshlutdeild jepplinga nánast þrefaldast í heiminum á einum áratug. New York Times segir að fjölgun eyðslufrekari jepplinga sé hindrun í vegi minnkandi losunar frá bifreiðum. Jepplingar eyði að jafnaði um 30% meira en minni bílar.

Losun frá samgöngum nemur um 14% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Bílar og trukkar valda stærstum hluta losunar frá samgöngum.

Fjárfesta mikið í jepplingum þrátt fyrir loforð um grænni bíla

Nokkur árangur hefur náðst í að takmarka losun frá bifreiðum undanfarin ár, bæði með tækni sem hefur gert hefðbundna bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti sparneytnari en einnig með tilkomu raf- og tvinnbíla.

Þannig jókst sparneytni bifreiða um 1,8% á ári frá 2005 til 2008. Síðan þá og fram til 2015 hefur hins vegar hægt á þeim framförum. Sparneytnin jókst þá um 1,1% á ári á heimsvísu.

Stórtækar fjárfestingar í þróun eyðslufrekari jepplinga kemur á sama tíma og stórir bílaframleiðendur hafa heitið því að einbeita sér frekar að umhverfisvænni raf- og tvinnbílum. Stórfyrirtæki eins og General Motors og Volkswagen hyggja þannig á stóra landvinninga í sölu jepplinga á næstu árum.

Mun meiri hagnaðarvon er í jepplingunum fyrir bílaframleiðendurna en minni bíla. Á sama tíma tapa flestir bílaframleiðendur á framleiðslu rafbíla. Spáð er að svo verði áfram fram eftir byrjun næsta áratugs.

Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey áætlar að annar hver seldur bíll í Kína verði jepplingur fyrir árið 2022. Það gæti sett stórt strik í reikninginn þegar stjórnvöld reyna að koma böndum á gríðarlega loftmengun í borgum þar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×