Fótbolti

Sky bendir lesendum á að fylgjast með Gylfa í Þjóðadeildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi Þór var fyrirliði Íslands í síðustu leikjum í fjarveru Arons Einars Gunnarssonar
Gylfi Þór var fyrirliði Íslands í síðustu leikjum í fjarveru Arons Einars Gunnarssonar vísir/vilhelm
Gylfi Þór Sigurðsson er einn af þeim leikmönnum sem Sky Sports bendir lesendum sínum á að fylgjast með í Þjóðadeild UEFA.

Þjóðadeildin fer aftur af stað á fimmtudaginn og stíga margir bestu leikmenn heims á stokk með sínum landsliðum. Sky Sports tók saman lista af sjö leikmönnum sem vert er að fylgjast með og var íslenski landsliðsmaðurinn einn af þeim.

„Everton er loksins að sjá það besta sem Sigurðsson hefur upp á að bjóða eftir að hann fékk frelsi til að spila í tíu-hlutverkinu. Staða sem hann spilar í fyrir Ísland,“ segir í umfjöllun Sky um Gylfa.

„Hann tryggði 2-1 sigur gegn Leicester með einu af mörkum tímabilsins, hans fjórða deildarmark í jafn mörgum leikjum. Þjóð hans vonast eftir því að hann fylgi þessu eftir inn í landsleikina, þeir þurfa svo sannarlega á því að halda. Eftir jafnteflið við Argentínu á HM hafa Sigurðsson og félagar tapað fjórum leikjum í röð og aðeins skorað einu sinni.“

Aðrir sem eru á listanum eru meðal annars Eden Hazard, Leroy Sane og nýjasta stjarna Englendinga Jadon Sancho.

Ísland mætir heimsmeisturum Frakklands í vináttuleik á fimmtudag. Þeir mæta svo á Laugardalsvöll á mánudaginn og taka á móti Sviss í Þjóðadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×