Fótbolti

Rúnar Alex: Frakkaleikurinn verður gott próf fyrir okkur

Henry Birgir Gunnarsson í Saint-Brieuc skrifar
Rúnar Alex á hóteli landsliðsins í gær.
Rúnar Alex á hóteli landsliðsins í gær.
Rúnar Alex Rúnarsson gekk í raðir franska liðsins Dijon síðasta sumar og er nú mættur í landsleik gegn Frökkum sem fram fer í Guingamp á fimmtudag.

„Ég er búinn að vera svo stutt í Frakklandi þannig að ég lít ekki alveg á mig sem Frakka enn þá. Það væri annað ef þessi leikur hefði verið í Danmörku þar sem ég var lengur þar. Þetta er svona venjulegt finnst mér,“ segir Rúnar Alex yfirvegaður á hóteli íslenska liðsins í Saint-Brieuc í gær.

Markvörðurinn er að sögn sleipur í frönsku þó svo hann vilji nú ekki hæla sér of mikið fyrir hana.

„Það gengur hægt og ég er nýbyrjaður í tímum. Ég hef verið að rifja upp það sem ég lærði áður. Mér gengur vel að skilja en það er erfiðara að tala. Ég var með fínan grunn frá því er ég bjó í Belgíu og svo tók ég auðveldu leiðina í framhaldsskóla með því að taka aukaáfanga í frönsku.“

Þó svo gengi Dijon hafi verið upp og ofan þá hefur Rúnar Alex verið að spila mjög vel og vakið athygli í franska boltanum fyrir sína frammistöðu.

„Mér persónulega hefur gengið ágætlega þó svo liðið sé að hiksta. Mér líður mjög vel í borginni og hjá liðinu,“ segir markvörðurinn en hver helst munurinn á því að spila í Frakklandi og Danmörku?

„Hraðinn myndi ég segja. Menn eru líkamlega sterkari og fljótari hér. Gæðalega eru þeir betri og betri lið í deildinni. Þá er meiri hraði á öllu og maður þarf að vera á tánum í 90 mínútur. Þetta er hörkudeild og gaman.“

Rúnar Alex er efstur á blaði yfir arftaka Hannesar Þórs Halldórssonar í marki íslenska liðsins og vonast eftir því að fá að spila gegn Frökkum.

„Þetta verður erfitt og gott próf fyrir okkur. Þetta er æfingaleikur og því kannski auðveldara að setja mig í liðið. Þjálfarinn hefur samt bara fengið tvo leiki og vill kannski spila á því liði sem hann þekkir og treystir. Ég mun virða þá ákvörðun sem þjálfararnir taka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×