Kaupin áttu sér skamman aðdraganda. Viðræður hófust á laugardag og var tilkynnt um undirritun kaupsamnings í dag.
Icelandair Group eignast allt hlutafé í WOW Air og er kaupverðið greitt með hlutabréfum sem samsvara 5,4 prósenta hlut í Icelandair Group. Verðmæti hlutabréfanna er 2,1 milljarður króna sé miðað við markaðsverðmæti Icelandair í byrjun dags en hlutabréf í félaginu hækkuðu um 39 prósent í viðskiptum dagsins eftir að tilkynnt var um kaupin á WOW Air. Gengi bréfanna var 8 við opnun markaða í morgun en stóð í 11 við lokun.
Kröfuhafar WOW Air sem breyttu víkjandi láni í hlutafé eignast 1,8 prósent í Icelandair. Skúli Mogensen fær 3,5 prósenta hlut í Icelandair en hlutur Skúla gæti hækkað í 4,8 prósent eða lækkað niður í ekki neitt eftir því hvað kemur út úr áreiðanleikakönnun.
WOW Air verður sjálfstætt dótturfélag Icelandair. Félögin verða rekin áfram undir sömu vörumerkjum og engin breyting verður á rekstri þeirra fyrst um sinn. Þetta kemur fram í bréfi sem Skúli Mogensen sendi starfsfólki WOW Air í dag.
Hátt olíuverð og mikil verðsamkeppni í flugi yfir Atlantshafið hefur skapað vandamál í rekstri flugfélaga. Ljóst var að WOW Air gat ekki tekið á sig högg vegna hækkandi olíuverðs út í hið óendanlega en félagið er ekki varið fyrir hækkunum á olíuverði. Tunnan af Brent-hráolíu kostaði 30 dollara í ársbyrjun 2016 en hefur hækkað síðan og stendur nú í 74 dollurum. Verðið hefur því rúmlega tvöfaldast á tveimur og hálfu ári.

Kaup Icelandair á WOW Air eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun, samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki hluthafa Icelandair. Gangi kaupin eftir munu þau eyða óvissu í íslenskri ferðaþjónustu.
„Þessi niðurstaða gæti verið farsælasta niðurstaðan fyrir íslenskt efnahagslíf og þá sérstaklega fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. Við erum mögulega að komast fyrir vind en hefðum annars getað séð einhvers konar framboðsskell eða samdrátt í flugframboði til og frá landinu ef rekstrarvandi annars eða beggja flugfélaganna hefði eitthvað ílengst,“ segir Elvar Ingi.