Íslenski boltinn

Pepsimörkin: Annar rotaðist en hinn var svæfður á vellinum og báðir enduðu á sjúkrahúsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgeir Sigurgeirsson liggur sárkvalinn á vellinum.
Ásgeir Sigurgeirsson liggur sárkvalinn á vellinum. Mynd/S2 Sport
KA-menn urðu fyrir miklum skakkaföllum í leik sínum á móti Íslandsmeisturum Vals í 19. umferð Pepsideildar karla.

Tveir lykilleikmenn KA-liðsins fóru meiddir af velli í fyrri hálfleiknum. Fyrst meiddist Bjarni Mark Antonsson og fór af velli á 24. mínútu og svo meiddist Ásgeir Sigurgeirsson í lok hálfleiksins.

Pepsimörkin skoðuðu þessi atvik nánar en Bjarni Mark var hreinlega skotin niður en Ásgeir meiddist á hné eftir brot Valsmanna.

„Þetta er ljótt að sjá og hann fær hann beint í andlitið. Bjarni fær hann beint í hausinn og hann steinrotaðist. Þetta var smá stopp og sjokk fyrir alla leikmennina,“ sagði Þorvaldur Örlygsson um það þegar Birkir Már Sævarsson skaut niður Bjarna Mark Antonsson.

Óheppnin hélt áfram að elta Norðanmenn í fyrri hálfleiknum.

„Þarna sjáum við síðan annað brot þar sem Haukur Páll fer í Ásgeir. Mér fannst þetta ekki vera gróft brot en eftir því sem við heyrum þá lítur þetta ekki vel út. Þetta virkaði ekki mikið til að byrja með en við sáum strax að hann var sárþjáður,“ sagði Þorvaldur.

Hörður Magnússon sagði að samkvæmt heimildum hans frá Akureyri væru stórar líkur á því að Ásgeir væri með slitið krossband.

„Hann var svæfður á vellinum af því að hann var svo verkjaður. Þetta lítur mjög illa út og hrein ótrúleg óheppni. Ásgeir verður væntanlega frá í níu til tólf mánuði,“ sagði Hörður.

„Bjarni Mark fékk heilahristing en er á góðum batavegi,“ sagði Hörður.

Það má sjá alla umfjöllun Pepsimarkanna um þessi tvö leiðinlegu atvik hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×