Á Skálholtsvegi reyndu lögreglumenn að komast fram fyrir bifreið mannsins en hann þvingaði þá lögreglubifreiðina út fyrir veg. Í ljósi ástands mannsins, aksturslags og þeirrar almennu umferðar sem þarna á leið um ákváðu lögreglumennirnir að beita lögreglubifreið til að stöðva akstur mannsins. Það var gert á Þjórsárdalsvegi en við það valt bifreið hans.
Maðurinn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslu á sjúkrahús í Reykjavík. Hann var með meðvitund en nánari upplýsingar um meiðsl hans liggja ekki fyrir. Þau eru þó ekki talin alvarleg. Lögreglumenn á vettvangi eru ómeiddir.
Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið fengin til að aðstoða við rannsókn vettvangs.