Stjórnin hækkaði hins vegar launin í 1.567 þúsund krónur á mánuði. Í nýbirtum ársreikningi Hörpu má sjá að laun og launatengd gjöld til forstjóra Hörpu höfðu hækkað nokkuð milli áranna 2016 og 2017 og umfram það sem nemur þeim launum sem kjararáð ákvarðaði þáverandi forstjóra þann 13. febrúar 2017.
Forstjóraskipti urðu hjá Hörpu þann 1. maí í fyrra þegar Svanhildur Konráðsdóttir tók við af Halldóri Guðmundssyni sem verið hafði forstjóri í fimm ár. Launakjör Svanhildar voru þá þau sömu og kjararáð hafði ákvarðað Halldóri. Ný lög um kjararáð tóku hins vegar gildi 1. júlí 2017 sem höfðu þann tilgang að fækka verulega þeim sem kjararáð ákvarðar laun og færa ákvörðunarvaldið í mörgum tilfellum aftur til stjórna viðkomandi fyrirtækja og félaga í opinberri eigu.
Eitt þessara félaga var Harpa ohf. Fréttablaðið leitaði skýringa á þessum launahækkunum sem birtust í ársreikningi Hörpu. Þórður Sverrisson, stjórnarformaður Hörpu, staðfestir að stjórnin hafi hækkað laun Svanhildar í fyrra, eftir að hún tók við starfinu, en það hafi verið fyrir hans tíð í stjórn.

Stjórnarákvörðunin í fyrra gerði það að verkum að laun forstjórans hækkuðu um ríflega 260 þúsund krónur á mánuði, eða 20,5 prósent. Eftir því sem næst verður komist leiddi ákvörðun kjararáðs í febrúar 2017 ekki til teljandi launahækkunar hjá forstjóra Hörpu.
Fréttir hafa borist af launaskriði æðstu stjórnenda ríkisfyrirtækja og stofnana undanfarnar vikur, en fjallað hefur verið um að Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar fékk 32 prósenta launahækkun í fyrra og að Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri fékk 16 prósenta launahækkun hjá RÚV, svo dæmi séu tekin. Hækkanir sem fallið hafa í grýttan jarðveg hjá verkalýðsforystunni.
Þessar umtalsverðu launahækkanir til handa forstjórum og stjórnendum opinberra fyrirtækja og félaga, nýfrjálsum undan ákvörðunarvaldi kjararáðs, ganga í berhögg við tilmæli fjármála- og efnahagsráðuneytisins til stjórna fyrirtækja í ríkiseigu í fyrra. Þar var þeim ráðlagt að stilla öllum launahækkunum forstjóra í hóf eftir að ákvarðanir um laun þeirra færðust undan kjararáði af ótta við hugsanleg áhrif launaákvarðana á stöðugleika á vinnumarkaði.