„Tvennt hefur valdið því. Annars vegar sökum mikillar ofankomu reyndist erfiðlega á tímabili í morgun að tryggja bremsuskilyrði fyrir vélar í lendingu, moksturinn gekk þannig. Á sama tíma gekk erfiðlega að af ísa vélar sem voru að leggja af stað. Þetta vann saman að því að valda töfum á vellinum,“ segir Guðjón.
Hann segir nokkrar vélar hafa hringsólað yfir vellinum í morgun. Fjórar vélar frá Icelandair þurftu að lenda á Egilsstaðaflugvelli og tvær á Akureyrarflugvelli. Báðar vélarnar frá Icelandair sem lentu á Akureyri eru farnar til Keflavíkur en enn eru tvær eftir frá Icelandair á Egilsstöðum.
Guðjón segir eina vél frá Delta hafa tekið þá ákvörðun að lenda á flugvelli í Skotlandi vegna veðurs á Keflavíkurflugvelli.
Hann segir stöðuna á Keflavíkurflugvelli mun betri nú og er nú unnið að því að vinda ofan af þeim töfum sem urðu á flugi í morgun. Má því búast við einhverri röskun á flugáætlun fram eftir degi og farþegar beðnir um að fylgjast vel með nýjustu upplýsingum.
Á samfélagsmiðlum má fylgjast með viðbrögðum erlendra ferðamanna hér á landi við veðrinu í morgun. Einn þeirra sagði snjókomuna minna á hvers vegna landið er kennt við ís.