Birkir Bjarnason gæti yfirgefið Aston Villa í janúar þar sem hann fær ekki að spila nógu mikið með félaginu.
Ítalska liðið SPAL, sem er sem stendur í 17. sæti Serie A, hefur lagt fram tilboð í Birki. Ítalski miðillinn Tuttomercata segir frá.
Leonardo Semplici, þjálfari SPAL, er talinn vera mikill aðdáandi Birkis og á hann að hafa gert það að forgangsatriði að fá íslenska landsliðsmanninn til liðs við félagið.
Jim Solbakken, umboðsmaður Birkis, segir Birki dreyma um að spila aftur í Serie A.
„Birkir er einbeittur að því að hjálpa Aston Villa að komast aftur í ensku úrvalsdeildina. Hann dreymir hins vegar um að spila aftur í Serie A, þar sem honum gekk mjög vel. Við sjáum hvað gerist, vonandi skýrist framtíð hans á næstu dögum.“
Birkir lék með ítölsku liðunum Pescara og Sampdoria tímabilin 2012-15 og er því öllu kunnugur þar í landi.
