Innlent

Mikið tjón í bruna í fiskeldi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Frá vettvangi í nótt. Slökkviliðsmenn frá Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfossi voru sendir á staðinn
Frá vettvangi í nótt. Slökkviliðsmenn frá Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfossi voru sendir á staðinn Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Mikið tjón varð þegar eldur kom upp í fiskeldisvinnslu í landi Núpa í Ölfusi í nótt.

Slökkviliðsmenn frá Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfossi fengu boð um eldinn klukkan rúmlega hálf eitt í nótt og voru sendir á staðinn ásamt sjúkraflutningamönnum og lögreglu, en það var nágranni sem varð eldsins var og tilkynnti hann til Neyðarlínu.

Þegar fyrstu menn komu á vettvang var ljóst að mikil eldur var í húsinu sem líklega hefði náð að krauma lengi en eldtungur loguðu út um þak þegar að var komið.  Í húsinu er starfrækt klak- og seiðaeldisstöð fyrir lax og bleikju á vegum Íslandsbleikju/Silfurlax og voru starfsmenn ekki á staðnum þegar eldurinn kom upp en unnið er í fiskeldinu á daginn og bakvakt á kvöldin.

Slökkviliðsmenn þurftu að koma vatni á staðinn með þremur tankbílum og var slökkvistarf unnið utan frá þar sem hætta var á hruni inni í húsinu en þakið féll að hluta.

Veður var gott á brunavettvangi. Hægur vindur og þéttur úði, sem auðveldaði slökkvistarf. Þó nokkur vinna var fyrir slökkviliðsmenn að rjúfa klæðningar til þess að slökkva eld og glæður.

Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu sagði að slökkvistarf hafi gengið vel og að tekist hefði að slökkva allan eld klukkan hálf þrjú í nótt. Þó ætti eftir að reykræsta húsið og slökkva í glæðum. Líklega yrði svo brunavakt á húsinu í nótt og fram til morgun til þess að tryggja að eldur tæki sig ekki upp aftur.

Eldsupptök eru ókunn og mun tæknideild Lögreglunnar á Suðurlandi rannsaka vettvanginn síðar í dag. Tjónið virðist mikið miðað við þá starfsemi sem er á staðnum en þónokkur eldiskör eru inni í húsinu með lifandi fiski.

Hér að neðan má sá myndir af vettvangi í nótt

 

 

 

Veður á brunavettvangi var gott. Hægur vindur og þéttur úði sem auðveldaði slökkvistarfVísir/Jóhann K. Jóhannsson
Mikið lið slökkviliðsmanna var á vettvangi í nótt. Eins og sjá má á þessari mynd féll þakið að hluta.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Mikil vinna var fyrir slökkviliðsmenn að rjúfa klæðningar til að slökkva eld og glæður.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Sjúkraflutningamenn og lögreglumenn fylgjast með aðgerðum slökkviðliðs í nóttVísir/Jóhann K. Jóhannsson
Slökkviliðsmaður skiptir um súrefniskút er hann vinnur að slökkvistarfi.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Slökkviliðsmenn þurftu að sækja vatn til slökkvistarfsins.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Húsið sem eldurinn kom upp í er stórt og var eldurinn mestur um miðbik þess.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Slökkviliðsmaður virðir fyrir sér þakið sem féll að hluta.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×