Innlent

Þrennt handtekið vegna vopna- og vímuefnabrota

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fólkið var flutt á Hverfisgötu þar sem það hefur mátt sofa úr sér vímuna.
Fólkið var flutt á Hverfisgötu þar sem það hefur mátt sofa úr sér vímuna. Vísir/Eyþór
Tveir karlmenn og ein kona voru handtekin um klukkan 22 í gærkvöldi. Að sögn lögreglu eru þau grunuð um margvísleg brot. Til að mynda er konan sögð hafa ekið bifreið undir áhrifum vímuefna, sem og að hafa haft fíkniefni í fórum sínum.

Að sama skapi segir í skeyti lögreglunnar að fíkniefni hafi fundist í fórum mannanna tveggja. Þeir eru jafnframt grunaðir um eignaspjöll og brot á vopnalögum, en annar þeirra er sagður hafa verið með eggvopn á sér. Þau voru öll vistuð í fangageymslu í nótt - „þar til hægt verður að yfirheyra þau.“

Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna gruns um akstur þeirra undir áhrifum vímuefna. Þeir voru báðir látnir lausir að lokinni skýrslu- og sýnatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×