Mikið hefur verið rætt um flutningana síðustu daga eftir að greint var frá því að flugfélagið hafi á síðustu árum flutt vopn til Sádi-Arabíu þaðan sem þau eiga greiða leið til stríðssvæða í Sýrlandi og Jemen.
Samtök hernaðarandstæðinga lögðu í gær fram kæru á hendur flugfélaginu Air Atlanta en samtökin telja flugfélagið hafa brotið lög um „eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu.“ Katrín Jakobsdóttir er meðlimur í samtökunum.
Aðspurð hvort stjórnsýslan hafi brugðist eftirlistsskyldu sinni segir hún það liggja fyrir að endurskoðun á reglugerð varðandi þessi mál hafi verið hafin í samgönguráðuneytinu eftir að upp kom mál þar sem var verið að flytja táragas til Venesúela.
„Þeirri umsókn var hafnað að fenginni neikvæðri umsögn frá utanríkisráðuneytinu. Slíkt hafði verklagið ekki verið fyrir þann tíma þannig að þá er hafin endurskoðun á regluverkinu og hvernig megi leggja pólitískt mat á það hvernig svona heimildir eru veittar,“ segir Katrín.
Þá segir hún að síðan hennar ríkisstjórn tók við hafi einungis ein undanþága verið veitt og það hafi verið til NATO-ríkis sem var að flytja hergögn fyrir eigin not.
„Nú er búið að óska eftir gögnum um þessi mál tíu ár aftur í tímann og samgöngumálaráðherra er að taka saman hvaða verklag hefur verið haft við þetta og hverjar undanþágurnar hafa verið. Við ættum því að fá skýrari mynd af því á næstunni,“ segir hún.
Katrín segir jafnframt nauðsynlegt að stjórnvöld hagi sér í samræmi við utanríkisstefnu landsins. „Ísland er herlaus þjóð. Okkar utanríkisstefna byggist á friði og mannúð og við eigum að tala fyrir þeim sjónarmiðum á alþjóðavettvangi. Við eigum að hegða okkur í samræmi við þessa stefnu.“