
„Mér finnst að það ætti að vera sér bráðamóttaka fyrir krabbameinssjúklinga. Fólk á að geta sótt á spítalann án þess að þurfa að eiga á hættu að sýkjast af öðrum veikindum, svo sem kvefi eða lungnabólgu. Það þarf að vera hægt að fá sérhæfða þjónustu,“ segir hann.
Hann bendir á að þegar þú ert með krabbamein og veikist skyndilega að kvöldi til þá eigir þú ekki að þurfa að hræðast það að leita á spítalann. Sjálfur er hann laus við meinið en undir stöðugu eftirliti næstu árin.
„Það er erfitt fyrir ónæmisbældan krabbameinssjúkling að lenda í því, kannski eftir lokun, að verða veikur og þurfa svo að leita á bráðamóttöku þar sem fyrir er mikið af veiku fólki. Þurfa svo að bíða í dágóðan tíma eftir að geta komist inn á herbergi sem er sérhannað fyrir krabbameinssjúklinga,“ bendir hann á.
Samkvæmt upplýsingum frá Velferðarráðuneytinu verður málið tekið fyrir eftir helgi.