Erlent

Tveir fangar sagðir hafa banað Bulger í fangelsinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Bulger á lögreglumyndum frá árinu 1953. Hann hélt hluta Boston í heljargreipum um árabil.
Bulger á lögreglumyndum frá árinu 1953. Hann hélt hluta Boston í heljargreipum um árabil. Vísir/AP

Að minnsta kosti tveir fangar myrtu James „Whitey“ Bulger, alræmdan mafíuforingja, í fangelsi í Vestur-Virginíu í dag. Bulger hafði verið færður í fangelsið í gær og fannst látinn í klefa sínum í dag. Hann er sagður hafa verið barinn til dauða.

New York Times hefur eftir starfsmönnum fangelsismálstofnunar bandarísku alríkisstjórnarinnar að talið sé að morðingjar Bulger tengist mafíunni. Bulger stýrði glæpagengi í suðurhluta Boston en var einnig sagður hafa verið uppljóstrari fyrir alríkislögregluna FBI.

Bulger var að afplána lífstíðarfangelsisdóm vegna ellefu morða sem hann var sakfelldur fyrir. Hann var fluttur í Hazelton-fangelsið í Vestur-Virginíu frá Flórída í gær. Ástæðan er sögð sú að hann hafði í hótunum við starfsmann fangelsisins þar.

Hazelton-fangelsið er sagt sérlega hættulegt. New York Time segir að 275 ofbeldisbrot hafi komið upp þar í fyrra, þar á meðal slagsmál fanga og meiriháttar líkamsárásir á starfsfólk. Fangi lést í áflogum þar í apríl. Annar fangi lét lífið eftir átök þar í síðasta mánuði.

Bulger var á flótta undan FBI í sextán ár en var handtekinn í Kaliforníu árið 2011 eftir að íslensk kona sem bjó í næsta húsi við hann lét yfirvöld vita.


Tengdar fréttir

Nágranninn hættulegasti glæpamaður Bandaríkjanna

Þann 22.júní árið 2011 var eftirsóttasti glæpamaður Bandaríkjanna handtekinn í íbúð sinni í Santa Monica vegna ábendingar frá íslenskri nágrannakonu hans. Það hefur kostað hugrekki enda ferill James Whitey Bulger blóði drifinn.

Mafíuforinginn „Whitey“ Bulger fannst látinn

James Whitey Bulger var handtekinn árið 2011 eftir ábendingu frá íslenskri konu sem bjó við hliðina á honum. Hann hafði verið á flótta undan yfirvöldum í sextán ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×