Erlent

Rússneskir saksóknarar herja enn á sérfræðing í fjöldamorðum Stalíns

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrátt fyrir að hafa borið ábyrgð á dauða milljóna manna á Jósef Stalín sér enn aðdáendur í Rússlandi. Pútín forseti segir að of dökk mynd hafi verið dregin upp af einræðisherranum alræmda.
Þrátt fyrir að hafa borið ábyrgð á dauða milljóna manna á Jósef Stalín sér enn aðdáendur í Rússlandi. Pútín forseti segir að of dökk mynd hafi verið dregin upp af einræðisherranum alræmda. Vísir/EPA
Júrí Dmítríjev, rússneskur sagnfræðingur sem hefur vakið reiði stjórnvalda í heimalandinu vegna leitar sinnar að fjöldagröfum Jósefs Stalíns, var í dag sakaður um hafa brotið kynferðislega gegn ættleiddri dóttur sinni. Hann var hreinsaður af svipuðum glæpum í apríl.

Leit Dmítríjev að fjöldagröfum frá árunum 1937 til 1938 þegar sovéski einræðisherrann Stalín lét taka hátt í 700.000 manns af lífi hefur farið fyrir brjóstið á sumum rússneskum ráðamönnum. Dmítríjev hefur þegar fundið gröf með líkum allt að níu þúsund manna frá þessu tímabili.

Vladímír Pútín forseti hefur harmað að of dökk mynd hafi verið dregin upp af Stalín í því skyna að grafa undan Rússlandi.

Upphaflega sökuðu saksóknarar í norðvesturhluta Rússlands Dmítríjev um að hafa í vörslu sinni kynferðislegar myndir af ættleiddri dóttur sinni sem þá var ellefu ára gömul. Dómari skikkaði hann meðal annars til þess að sæta geðrannsókn til að kanna hvort hann væri kynferðislega brenglaður. Sérfræðingar báru þó vitni um að myndir af stúlkunni væru ekki barnaklám.

Dómstóll hreinsaði Dmítríjev af ásökununum í apríl en áfrýjunardómstóll sneri þeim úrskurði við fyrr í þessum mánuði. Dmítríjev var þá aftur hnepptur í varðhald. Hann hefur þegar setið í fangelsi í þrettán mánuði vegna ásakananna.

Kallar ásakanirnar „uppspuna“

Í dag tilkynntu saksóknarar svo að þeir hefðu hafið nýja sakamálarannsókn á sagnfræðingnum, nú vegna meintra kynferðisbrota hans gegn dótturinni. Allt að tuttugu ára fangelsi liggur við þeim brotum, að sögn Reuters-fréttstofunnar.

Stuðningsmenn Dmítríjev og mannréttindasamtök telja að yfirvöld ofsæki hann vegna leitar hans að fjöldagröfum Stalíns. Talskona Evrópusambandsins sagði í gær að málið gegn Dmítríjev „vafasamt“ og að sambandið byggist við því að það yrði látið niður falla. Mannréttindavaktin (e. Human Rights Watch) hefur sagt að ástand mannréttinda í Rússlandi hafi ekki verið verra frá því í tíð Sovétríkjanna.

Dmítríjev hafnar nýju áskökunum og segir þær „tilbúning“. Saksóknar setji þær fram til þess að sýna fram á að þeir hafi ekki haft rangt fyrir sér í upphaflega málinu gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×