Erlent

Merkel gagnrýnir matargjafir gegn framvísun passa

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Vísir/epa
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, bættist í gær í hóp gagnrýnenda þýsku góðgerðarsamtakanna Essener Tafel. Samtökin hafa sætt gagnrýni undanfarið fyrir að setja það skilyrði við matargjöfum að viðkomandi framvísi þýsku vegabréfi. Mikil reiði hefur ríkt vegna ákvörðunarinnar og hafa hinir ósáttustu, sem telja flóttamönnum og öðrum innflytjendum mismunað með ákvörðuninni, meðal annars krotað „nasistar“ á bíla samtakanna.

„Það ætti ekki að skilyrða hjálparstarfsemi sem þessa. Það er ekki gott. En þetta sýnir vissulega hversu mikil þörfin er, hversu margir eru í sárri þörf. Þess vegna vona ég að samtökin finni góða lausn á vandanum sem útilokar engan,“ sagði Merkel en samtökin sögðu ákvörðunina tekna því hlutfall útlendinga sem sótti um matargjafir hefur tvöfaldast á skömmum tíma.

Stjórnarandstöðu- og þjóðernis­hyggjuflokkurinn AfD tók illa í gagnrýnisraddir. Í yfirlýsingu sem flokkurinn birti, með fyrirsögninni „Saurstormur hjá Essener Tafel“, sagði: „Hver sá sem gagnrýnir eða bendir á hið augljósa er samstundis kallaður nasisti. Slíkar ásakanir eru gjörsamlega fáránlegar og smekklausar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×