Erlent

Taka enga áhættu við björgun fótboltastrákanna úr hellinum

Mikil gleði braust út eftir að í ljós kom að drengirnir væru heilir á húfi.
Mikil gleði braust út eftir að í ljós kom að drengirnir væru heilir á húfi. Vísir/Getty
Björgunarsveitir í Tælandi munu ekki taka neina áhættu við að bjarga fótboltastrákunum tólf og þjálfara þeirra úr hellinum þar sem þeir hafa setið fastir undanfarna tíu daga. BBC greinir frá.

„Við munum ekki flýta okkur að óþörfu við að koma drengjunum úr hellinum,“ sagði Narongsak Osoththanakorn, héraðsstjóri Chiang Rai við blaðamenn.

Drengirnir og þjálfari þeirra fundust í gær eftir viðamiklar leitaraðgerðir en kafarar glímdu við afar erfiðar aðstæður í hellinum sem drengirnir dvelja í. Alls óvíst er hvenær þeim verður bjargað úr hellinum.

Eins og Vísir greindi frá í morgun er talið að fótboltastrákarnir gæti þurft að dvelja í hellinum í nokkra mánuði til viðbótar. Hellirinn er erfiður yfirferðar, nær ómögulegt er að grafa sig til þeirra og þar að auki eru drengirnir ósyndir.

Yfirvöld meta nú bestu leiðina til þess að bjarga drengjunum og verður sem fyrr segir engin óþarfa áhætta tekin í björgunaraðgerðunum. Sérstakt teymi er meðal annars að störfum í fjalllendinu þar sem hellarnir eru til þess að reyna að finna aðra leið að drengjunum.

Í millitíðinni hefur miklum birgðum af mat hefur verið komið til drengjanna. Hefur þeim verið gefið auðmeltanlegt og orkuríkt fæði til þess að byggja upp styrk þeirra að sögn hershöfðingja í tælenska hernum.


Tengdar fréttir

Gætu þurft að vera mánuði í hellinum

Óttast er að taílensku fótboltastrákarnir, sem fundust í gær við mikinn fögnuð heimsbyggðarinnar, gætu þurft að dvelja í hellinum í nokkra mánuði í viðbót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×